Konurnar að baki Bleikt
 
10.6.2011 - Klara Egilson

Ég hikaði í nóvember, þegar ritstjóri bauð mér að skrifa fyrir vefinn. Ég gleymi aldrei símtalinu, sem barst seint um kvöld og innihélt orðin: „Við erum að fara af stað með nýjan vef. Ákvörðunin hefur ekki verið gerð opinber. Allt sem á milli okkar fer í kvöld, er í trúnaði sagt og verður að vera svo um ákveðinn tíma. En ég hef ákveðið að bjóða þér að skrifa. Okkur langar að bjóða þér að vera með.“

Ég var atvinnulaus þegar tilboðið barst. Hafði ekki tekið í grein um langt skeið og kveið framhaldinu. Velti tilboðinu milli handa mér í fáeina daga, hringdi í föður minn og ráðfærði mig við nokkrar vinkonur. „Ætti ég að skrifa fyrir Bleikt?“ sagði ég í fáein skipti.

Allar dyr virtust mér lokaðar þegar Hlín hafði samband og bauð mér að skrifa fyrir vefinn. Ég var nýkomin úr fæðingarorlofi, hafði lagt inn nokkrar umsóknir en engum þeirra var svarað. „Við erum ekki að ráða núna,“ sögðu einhverjir og aðrir gengu svo langt að segja mér að krafta minna væri ekki óskað.

Ég er dóttir leikkonunnar Rósu Ingólfs og hef fengið minn skerf af gagnrýni fyrir vikið. Flestir ætla mig ljósrit af konunni sem sneri landinu á hvolf þegar hún steig fram og lofaði mýkri hliðar kvenna. Mér hefur aldrei verið gefið færi á að svara á opinberum vettvangi fyrr; leggja minn skerf til umræðunnar, draga sjálfstæð mörk, mæla röddu sem er mín eigin og ekki bergmál af þrjátíu ára gömlum orðum móður minnar.

Að lokum steig ég skrefið, kom mér í samband við Hlín og jánkaði. Ég vildi vera með.

Ég velti því fyrir mér um stund, hvernig ég ætti að beita pennanum. Um hvað ég ætti að skrifa. Eftir nokkra umhugsun kom ég niður á umfjöllunarefni sem mér þótti vert að ræða. Um það hugrekki sem ástin útheimtir. Ég ákvað að skrifa um konur og kærleika. Viðhorf mín í einkalífinu og langanir mínar, sem hef lifað nokkur árin.

Ég ákvað að vera einlæg. 

Fyrsti fundurinn er mér í fersku minni. Hann fór fram við eldhúsborðið heima hjá mér og snerist um útlit síðunnar. Hlín sýndi mér uppkast að vef, sem átti að birtast innan tíðar. Spenntar á svip ræddum við framhaldið, efnisflokkana og þær útfærslur sem hægt væri að þróa.

Þegar fundinum lauk, settist ég niður og fór að skrifa. Ég skrifaði um ástina. Og konur. Viðhorf mín og langanir. Vangaveltur um kvenleika og allt sem ekki má. Ég skrifaði um kynin tvö og þann eltingaleik sem tilhugalífið er. Viðbrögð við höfnun og leiðir til úrlausna.

Ég hló meðan ég skrifaði orðin og flissaði þegar efnisgrein lauk. Byrjaði nýja, dreymin á svip og hélt áfram að kasta upp hugmyndum eins og teningum, sem komu aldrei niður á sömu hlið. Ég skrifaði um drauma. Veruleika og vandmeðfarna hluti.

Einhverja móðgaði ég. Aðrir glöddust. Mesta hitann tók ritstjóri vefsins, sem fór í loftið þann 10. desember 2010 og sneri þjóðfélaginu samstundis á hvolf, rétt eins og orð móður minnar gerðu fyrir einum þrjátíu árum síðan. Þegar Bleikt fór í loftið, fannst mér eins og ég hefði sjálfviljug sest upp í tímavél og snúið aftur til átaka þeirra sem einkenndu umræðu barnæsku minnar.

Allir höfðu skoðanir á Bleikt, vefnum sem var fullskipaður konum. Rauðsokkur risu upp úr gröfum sínum og við áttum fótum okkar fjör að launa.

Einhverjir sögðu mig vergjarna glyðru. Aðrir ætluðu mér örvæntingu, meðan fáeinir lofuðu skrif mín, sem snerust um ástina og allar hennar birtingarmyndir. Fjölmiðlafárið var gífurlegt. Hver grein sem fór inn á vefinn góða var hafin til skýjanna, skilgreind í þaula, skeggrædd og að lokum endurrituð gegnum bloggsíður, sem ýmist hneyksluðust á innihaldinu eða gegnumlýstu orðin.

Ég, Klara Egilson Geirsdóttir, tveggja barna einstæð móðir á barmi fertugs, varð þekkt nafn á einni nóttu þegar ég steig skrefið og ritaði mína fyrstu grein fyrir Bleikt. Hlín Einarsdóttir varð þjóðfræg fyrir forystu sína og hafði vart undan að svara beiðnum fjölmiðla. Allir vildu ræða við konuna sem hafði mýkri gildi að leiðarljósi og ritstýrði vefmiðli sem fjallar að mestu um það sem fagurt er.

Viðbrögðin voru ótrúleg. Afþreyingar- og lífsstílsvefurinn Bleikt sló innlent aðsóknarmet frá fyrsta degi og var ásókn svo mikil að vefmælingarrisinn Modernus ritaði sérstaka grein um „nýliðann“ sem rauk upp í tíunda sæti á fyrstu viku vefmælingar, en viðtökurnar voru óheyrðar meðal innlendra fjölmiðla á fyrstu viku útgáfu. Orðlausar af undrun og knúnar af metnaði, héldum við áfram.

Ritstjóri minn tók slaginn og stormaði inn í orrustuna á háum hælum, vopnuð bleika litnum, sem stendur fyrir kærleika og mýkt. Skoðanir okkar varði hún með öllum ráðum og lagði eigið mannorð að veði, svo raddir okkar mættu heyrast. Umvafin konum á öllum aldursskeiðum, pennum sem rituðu fyrir vefinn, ljáði hún fjölbreytileika íslenskra kvenna röddu sem hafði aldrei áður ómað svo skýrt og greinilega.

Við erum konur – var inntak orða þeirra.

Ferðalagið hefur verið framandi. Furðulegt. Fyndið. Á leið okkar gegnum dagana, sem hafa runnið fyrir augum okkar, höfum við klifið fjöll og firnindi, rekist á hindranir og yfirstigið þær, unnið magnaða sigra og slegið nokkur met sem engan hefði órað fyrir að einstæðar mæður gætu áorkað í sameiningu. Vð höfum haldið áfram. Í krafti kvenna. Með óbilandi trú á mátt okkar sjálfra.

Við höfum hlegið og tárast, undrast og glaðst. Bölsótast og ragnað. Barist og sigrað. Borið höfuðið hátt og rekið okkur á veggi. Klifið hindranir og haldið áfram. Vaxið og dafnað. Við höfum áorkað meiru en nokkrum renndi í grun, þegar vefurinn leit fyrst dagsins ljós í upphafi desember síðasta árs.

Ég er umvafin konum. Ég heyri raddir þeirra á hverjum degi í gegnum orðin sem dansa á skjánum. Orð þeirra streyma inn í pósthólfið mitt. Pennarnir á Bleikt eru fallegar konur. Þær búa yfir hugrekki og visku, þekkingu og kímni. Stundum hlæjum við saman. Við myndum heild sem slær skjaldborg um mýkri hliðar mannlífsins. Ég er stolt af stelpunum mínum, konunum sem móta orðin og mynda umrædda heild. 

Ég er hreykin af þeim árangri sem konurnar á Bleikt hafa áorkað. Þeirri sköpun og frjóleika sem einkennir stefnu okkar allra. Ég er hreykin af þem öra vexti sem einkennir ritstjórnarstefnu Bleikt og ég er stolt af stelpunum sem deila skrifstofu með mér á daginn. Ég elska þær af öllu hjarta.

Ég hóf feril minn við eldhúsborðið heima. Í dag gegni ég fullu starfi sem útheimtir mikla ábyrgð og á mitt eigið horn á skrifstofunni. Ég er þessi til vinstri, ég sit við gluggann á daginn. Ég legg metnað í vinnu mína og ber ómælda virðingu fyrir orðum þeirra frjóu og fallegu kvenna sem ljá vefnum líf.

Ég var innt eftir því fyrir stuttu hvert ég stefndi. Ég svaraði að markmiði mínu væri þegar náð.

Þökk sé þeim konum sem vísuðu mér veginn með fallegum orðum; þær leiddu mig heim.