2011-03-28

Vaðið í bótum

Forstöðustýru Jafnréttisstofu finnst sérkennilegt að fólk fresti ekki barneignum í kreppunni. Hún lætur ennfremur hafa eftir sér að hún telji að einstæðar mæður eignist fleiri börn til að fá hærri bætur úr ríkiskassanum.
Kristín segir að leiða megi líkur að því að hluti einstæðra kvenna eignist börn til að fá hærri framfærslustyrk. Það sé eitthvað sem þyrfti að skoða mjög rækilega. Það sé auðvitað hugsanlegt. Einstæðar mæður fái fæðingarorlof í sex mánuði og margar þeirra með það lág laun að þær verði kannski ekki fyrir jafn mikilli skerðingu eins og ýmsir aðrir.
Mér finnst sérkennilegt að Kristín Ástgeirsdóttir berjist ekki frekar fyrir því að fleiri karlar fari í feðraorlof (pdf-skjal) í stað þess að ala á fordómum um einstæðar mæður.

ES. Fyrsta athugasemdin vakti mig til umhugsunar og ég ákvað að skipta orðunum fara með rökleysur um illan ásetning einstæðra mæðra út fyrir: ala á fordómum um einstæðar mæður. Mér þykir það lýsa skoðunum mínum betur, þótt ég standi við það að mér finnist það sem er haft eftir henni vera rökleysa.

2011-03-25

Að vera herramaður

Þökk sé Pjattrófunum vitum við nú hvað gerir karlmann að sönnum herramanni.

Það liggur að mestu leyti í útlitinu (ekki við öðru að búast af þeim bænum); herramenn eru fínir í tauinu (klæðast ekki stuttbuxum). En þetta felst ekki bara í útlitinu. Herramenn halda dyrum opnum fyrir konur, og passa upp á að þær gangi ekki of nálægt götunni. Svo mega þeir ekki vera tilgerðarlegir. Kannski það mikilvægasta af öllu fyrir herramanninn er vinnan.

Það er greinilega ekki mikið mál að vera herramaður.

2011-03-24

Tölfræðin er sérkennileg

Ég ætla ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í þessu máli en mér finnst það sérkennilegt að fólk haldi því sinkt og heilagt fram að tölfræðin á bak við greinina í Fréttatímanum sé sérkennileg. Eina tilraunin sem ég hef séð til þess að færa rök fyrir því að tölfræðin sé sérkennileg birtist í athugasemd á bloggi Evu Hauksdóttur [leturbreyting mín]:
Mér finnst reyndar liggja alveg í augum uppi hvað Egill á við með sérkennilegri tölfræði. Í þáttunum er m.a. fjallað um bókmenntir fyrri alda. Bókmenntir voru karlamenning og það getur nú varla talist sanngjarnt að ætlast til þess að í slíkri umfjöllun sé konum gert jafn hátt undir höfði og körlum. Eins er vafasamt að hengja manninn fyrir það að meirihluti ævisagna séu sögur karla. Það eru höfundar sem stjórna því um hvað þeir skrifa.
Ég settist því niður með listann og taldi einungis nöfn fólks sem fæddist um og eftir aldamótin 1900 (1899 fékk að fljóta með, það voru bara tvö nöfn). Niðurstaðan er þessi:

Konur    107   23%
Karlar   355   77%

Ef maður telur bara rithöfunda fædda eftir 1899 og gesti þáttarins (þ.e.a.s. ekki viðfangsefni ævisagna, sem Eva gagnrýnir) þá er niðurstaðan þessi (athugið að umfjöllunarefni Braga eru ekki tekin með í þessum tölum):

Konur   92   25%
Karlar   273   75%

Það er lengi hægt að leika sér með þessar tölur en ég held að hvernig sem þeim er snúið fer þetta allt á einn veg. Konur fá ekki þá umfjöllun í Kiljunni sem þær eiga skilið. Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta mál.

ES. Ég vil taka það fram, fyrst það virðist vera orðin viðtekin skoðun, að ekkert okkar sem skrifaði greinina í Fréttatímanum hefur farið fram á hengingu Egils Helgasonar. Honum hefur einungis verið bent á það að hlutfall kvenna í þættinum hans er óeðlilega lágt. Hafi hengingarólin einhvern tíma verið hengd um háls hans, er hann einn um það að herða hana. 

2011-03-23

Frægar konur - og karlarnir þeirra

Ég hlustaði á Nordegren i P1 í bílnum á leiðinni heim í dag. Þar var verið að tala um það hversu merkilegt það væri að þegar frægar konur deyja þarf alltaf að taka það fram hvaða karla þær hafa verið viðriðnar. Sama ætti ekki endilega við um fræga karla.

Mér sýnast íslenskir fjölmiðlar vera sama marki brenndir. Sumir alla vega.

Skoðið líka wikipedia og berið saman greinar þar um til dæmis fræga leikara eða íþróttafólk. Þar er oftar en ekki tekið fram hverjum kona sé gift og hversu mörg börn hún eigi. Þessar upplýsingar sjást sjaldan á síðum um karlmenn. Ágætis dæmi um þetta eru sænsku wikipedia-síðurnar um Sönnu Lundell og Mikael Persbrandt.

Ef ég væri frægur myndi ég ekki hafa neitt á móti því að fólk vissi hver konan mín hafi verið og að ég hafi átt börn.

Mýtan um Mars og Venus

Gísli benti mér á grein á Pressunni. Hópur ástralskra vísindamanna hefur komist að því að konur og karlar hafa sömu eða svipuð gildi þegar kemur að samskiptum.

Hér er grein Karantzas et al. sem birtist í Australian Institute of Familiy Studies. Ég mæli með því að Hlín Einars lesi hana og skrifi um hana á bleikt.is. Hún gæti lært eitthvað af því.

Í niðurlagi greinarinnar stendur meðal annars þetta:

Furthermore, our findings suggest that any differences that may be identified between relationship partners should not be merely put down to stereotyped differences between the genders. Consequently, educators and therapists may need to think twice in proposing to couples that the source of their relationship differences is primarily the result of men and women thinking differently about relationships. Rather, points of difference for couples may be due to other reasons, such as people's differing personalities or cultural backgrounds.

Samkvæmt þessu er kenningin um að það sé eðlislægur munur á kynjunum röng og þá er, eins og Gísli bendir réttilega á, grundvöllurinn brostinn hjá síðum eins og bleikt.is og menn.is.

Um „ráð“ Ingu Hrannar

Hafið þið tekið eftir því að Pjattrófurnar eru næstum því hættar að fjalla um samskipti kynjanna? Núna eru eiginlega bara umfjallanir um snyrtivörur þar. Jú, og náttúrlega hönnun líka, sem er það sem gerir síðuna hálfáhugaverða ef eitthvað er. Reyndar skrifaði Gígí óskiljanlega færslu um það hvernig kona getur síkretað til sín karl, og klykkti út með orðunum

Vertu bara skapandi og jákvæð og hafðu þetta glaðleg tákn af pörum og áður en þú veist af… flýgur lítill feitlaginn Amor yfir höfði þér með spenntan boga.

Ef einhver getur sagt mér hvað þetta þýðir, má sá/sú gjarnan gefa sig fram.

Það er ekki hægt að segja um starfsfólk bleiks.is að það breyti um stíl. Þar sitja þau og dæla vitleysunni út á internetið eins og þau eigi lífið að leysa. Helgi Jean er samt of upptekinn núna við það að skrifa um allt fræga fólkið sem hann hefur hitt ... milli þess sem hann undirbýr nýju kallar.is-síðuna.

Inga Hrönn gefur lesendum til dæmis nokkur „ráð“ (ég skil ekki alveg hversvegna hún þurfti að setja gæsalappir utan um orðið, eins og að það sem hún skrifi sé eitthvað annað en ráð, lítur hún kannski á þetta sem lögmál?). Ráðin eru þrjú og mér finnast þau tvö síðustu mótsagnakennd.

Samkvæmt fyrsta ráðinu er heillavænlegt fyrir konu að hrósa karlmanninum sem hún er hrifin af. Það er ekki nóg að hrósa honum því samkvæmt öðru ráðinu (og nú þurfti ég að halda mér fast svo ég félli ekki í ómegin) er best „að hlæja eða brosa þegar strákur segir eitthvað fyndið (þó svo það sem hann segi sé ekki svo fyndið)“. Til þess að ganga í augun á karli þarf konan sem sagt að gera sér upp að henni finnist hann eitthvað skemmtilegur. Inga Hrönn reynir samt að bjarga sér fyrir horn með því að taka það fram að þetta eigi „ekkert við um alla stráka“ þótt „flestir kunni að meta það þegar stelpa sýnir áhuga á því sem þeir segja og sérstaklega þegar þær hlæja og brosa“. Einmitt. Það er gott að vita það. Þegar kona hlær og brosir að því sem ég segi, liggur eitthvað annað og meira undir en það að henni finnist ég skemmtilegur. Henni þarf ekkert endilega að finnast ég skemmtilegur; hún girnist mig

Það er með öðrum orðum sýndarmennskan sem er mikilvægust fyrir konur þegar þær vilja næla sér í karl. Nú kemur mótsögnin, því samkvæmt þriðja ráðinu er mikilvægt að vera „þú sjálf og ekki vera feimin við það að segja þínar skoðanir og standa fast á þínu“. Það er nefnilega þannig að þótt karlar kunni að meta það þegar konur sýna því sem þeir segja áhuga (þótt það sem þeir segja sé kannski ekkert sérstaklega áhugavert), þá kunna þeir líka að meta konur sem eru „ákveð[nar] og h[afa] skoðanir á hlutunum“.


Það skiptir engu máli hvort konan er undirförul eða hreinskilin. Ef karlinn sýnir henni ekki áhuga er hann bara „asni fyrir að taka ekki eftir [henni]!“

Og segið mér eitt, af hverju er alltaf talað um stelpur og stráka í þessum pistlum? Er verið að höfða til unglinganna sem lesa bleikt.is? Ef svo er, finnst mér að það ætti að setja aldurstakmark á síðuna.

2011-03-22

Karlfemínistar

Furðulegt hvað það þarf lítið til þess að fá alla karlkyns femínista Íslands upp á móti sér. Það er engu líkara en að þeir þurfi að verja óðalið sitt (nú verð ég sakaður um að vera í typpakeppni, en áður en þið sakið mig um það skulið þið lesa setninguna vel og vandlega svo að þið séuð viss um að þið skiljið hana). Um leið og einhver kemur sem notar rótækari aðferðir en þeir, gera þeir allt sem þeir geta til þess að rakka persónuna niður. *Aumingja ég*

Í stað þess að svara því sem ég skrifa málefnalega, hefur það verið afgreitt sem skætingur, sem idjótísk viðspyrna. Ég hef verið sakaður um að mistúlka viljandi. Ég hef verið sakaður um að fara með rangfærslur. Ég hef verið sakaður um að vera hrokafullur. Ég hef verið sakaður um að vera yfirlætislegur og að stunda mansplaining. Og rúsínan í pylsuendanum, dramatíkin. Ekkert af þessu er gagnrýni á efnisinntök mín. Allt þetta er gagnrýni á persónu mína. Svo les maður þetta og þá er ekki aftur snúið. Sé maður karlmaður er vissara að vera ekkert að hafa skoðanir á jafnrétti kynjanna. Það endar bara illa. Ásetningur minn hefur með öðrum orðum aldrei verið neitt annað en illur.


Ef ég mistúlka viljandi, finnst mér furðulegt að svona margt fólk skuli komast að sömu niðurstöðu og ég.

Ég viðurkenni það fúslega að ég hefði getað sleppt því að kalla Júlíu Margréti velviljaða konu. Það var ekki meint sem smættun, það var ekki meiningin að niðurlægja hana, það var ekki meiningin að ráðast á persónu hennar. Ég biðst velvirðingar ef þessi tilvitnun var túlkuð þannig. Hefði ég verið kona hefði tilvitnunin (sem er tilvitnun í aðra konu) ekki verið afgreidd sem mansplaining. Það hefði ekki þótt neitt athugavert við hana. Það er ekki tekið út með sældinni að vera róttækur.

Ég ætla ekki að hafa skoðanir í dag og þið megið hafa skoðanir ykkar í friði fyrir mér.

2011-03-21

Yfirlætislegt mansplaining

Ég fékk eitt það fallegasta hrós sem ég hef fengið núna rétt áðan. Bergsteini Sigurðssyni finnst það sem ég skrifa vera yfirlætislegt mansplaining

Ég átti von á þessu. Það er nefnilega þannig að þegar fólk fer yfir einhverja fyrirfram ákveðna línu leita aðrir að skýringum fyrir því hvers vegna. Karlmaður getur ekki verið einlægur femínisti. Það er mansplaining.

Ég hugsaði um þetta um daginn. Hvað ef það sem ég skrifa hérna verður túlkað sem mansplaining? Þá hætti ég. Þessi gagnrýni á nefnilega alveg örugglega rétt á sér, en það hefur aldrei verið ásetningur minn að vera yfirlætislegur. Ég hef heldur reynt að vera einlægur.


En hvað er mansplaining? Það eru niðurlægjandi, ónákvæmar útskýringar sem eru settar fram af miklu öryggi og vissu um að sá sem útskýrir hafi rétt fyrir sér, af því að hann er karlmaður.

Ég leyfi ykkur að dæma, en ég hef af öllum mætti reynt að vera ekki niðurlægjandi og ekki persónulegur. Ég hef gagnrýnt röksemdafærslur og reynt að benda á hvar röksemdafærslurnar ganga ekki upp. Ég hef reynt að sneiða hjá ónákvæmum skýringum, en ég neita því ekki að það sem ég hef skrifað hef ég skrifað af miklu öryggi. Það sem ég hef skrifað eru einfaldlega skoðanir mínar og þær falla eins og allt annað í misjafnan jarðveg. En þær eru ekki mansplaining.


Ég hef aldrei reynt að leyna því hver ég er, það er nógu margt fólk í kring um mig sem hefur vitað það allan tímann hver ég er. Ég lofaði samt sjálfum mér að ég myndi hætta þessu um leið og einhver myndi tengja þessa síðu réttu nafni mínu. Það hefur nú gerst en ég ætla ekkert að hætta. Mér er skítsama þótt einhverjum öðlingi þyki það sem ég skrifa vera yfirlætislegt mansplaining.

Kynleg Kilja

Ég held að það sé margt til í því sem kunningjakona mín skrifaði mér (og öðrum sem höfum verið viðriðin Kilju-bréfið). Hún skrifaði:
Alltaf skal einhver velviljuð kona koma körlunum til varnar.
Júlía Margrét Alexandersdóttir, sem er áreiðanlega mjög velviljuð, skrifar grein í Frétttablaðið í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug eftir að hafa lesið greinina var: „Aumingja Egill að þurfa að lenda í þessu einelti ...“.

Það er ýmislegt athugavert við það sem Júlía Margrét skrifar:

1. „Það má deila á þessa aðferðafræði þótt ég efi ekki niðurstöður“

Þetta hafa margir sagt síðan greinin okkar birtist í Fréttatímanum, en enginn hefur getað sagt okkur það nákvæmlega hvað er að aðferðafræðinni. Ef þáttafærslurnar gefa ekki rétta mynd af því hvað gerist í þáttunum, þætti mér réttara að gagnrýna Egil Helgason fyrir að vera jafnkarllægur í þáttafærslunum sínum og raun ber vitni. Það er ekkert að aðferðafræðinni.

2. „Góður þáttur Sigríðar Pétursdóttur, Kvika, er í eftirlæti undirritaðrar. Kvikmyndasagan er hins vegar sama marki brennd og bókmenntafortíðin; karlmenn eru þar í aðalhlutverki og þrátt fyrir mjög góða þátttöku kvenna í setti Sigríðar eru karlmenn þar eflaust í meirihluta séu viðfangsefnin dregin með í sama pott með sama hætti.“

Er þetta ekki alveg týpískt? Alltaf þegar karlmenn eru gagnrýndir þarf að draga fram einhverja konu og benda á að hún hegði sér nú fjandakornið alveg eins! Þessi samlíking er ekki einungis fáránleg; hún er kolröng. Frá áramótum hefur Sigríður rætt við átta konur og tíu karla. Hlutföllin eru sem sagt 45/55. Ég myndi telja það öllu jafnara kynjahlutfall en 23/77. Sigríður tekur þar að auki meðvitaðar ákvarðanir til að jafna hlut kynjanna í þáttum sínum. Það verður seint hægt að segja það um Egil Helgason.

3. „Fljótlegast í þessu öllu, er að líta hvorki til hægri né vinstri og beina spjótum að þáttastjórnandanum. Ég held þetta sé hins vegar kjörið tækifæri til að staldra við og velta við margfalt fleiri steinum. Í hvaða röð viljum við breyta þessu - eigum við að byrja á egginu eða hænunni. Ef Egill er bakarinn eru bókaútgefendur smiðirnir, sem stjórna því hvað kemur út.“

Við litum alltsvo hvorki til hægri né vinstri, beindum spjótunum að þáttastjórnandanum, hengdum bakara fyrir smið, veltum vitlausum steinum og byrjuðum á egginu (fyrirgefið háðsglósuna, ég stenst bara ekki mátið ... ef ég hefði bara haft 390 orð, þá hefði ég kannski látið eina myndlíkingu duga). Aumingja Egill ... Hann er bara að endurspegla raunveruleikann í þáttunum sínum. Hversu lengi ætlum við að leyfa körlum að nota þessa afsökun til þess að sporna við auknum réttindum kvenna? Þetta er rangt og ég er viss um að ef Júlía Margrét veltir því aðeins betur fyrir sér kemst hún að sömu niðurstöðu og við. Bókmenntaþátturinn Kiljan endurspeglar ekki raunveruleika íslensks bókmenntalífs. Hann endurspeglar karlkynshluta íslensks bókmenntalífs. Það er hins vegar alveg rétt að það má velta fleiri steinum. Okkur fannst bara brýnt að byrja þar sem kynjamismununin var sem augljósust. Það ætti líka að vera deginum ljósara að það er þáttastjórnandinn sem ákveður hverjir mæta í þáttinn hans og það er þáttastjórnandinn sem getur tekið meðvitaða ákvörðun um að gera báðum kynjum jafnhátt undir höfði þótt þeim sé kannski ekki gert það annars staðar í þjóðfélaginu. Það kallast að sýna gott fordæmi.

2011-03-19

Vindmyllan Egill Helgason

Ég ætlaði að vinna mig í gegn um „svarbréf“ Egils Helgasonar en ég nenni því ekki. Það er ekki orðum eyðandi á svona fólk.

Þar að auki er Kristín Jónsdóttir, Parísardama búin að skrifa alveg ágætis pistil um „svarbréfið“. Ég læt þau orð lifa óáreitt í stað þess að bæta einhverju rugli við sjálfur. Með einni undantekningu.

Egill Helgason heldur því fram að „í [greininni sé] beinlínis hvatt til þess að [hann] sé rekinn.“ Hefði Egill Helgason lesið greinina, hefði hann komist að því að það er hvergi farið fram á það að honum verði vikið úr starfi. Það stendur orðrétt:
Við teljum að ef ritstjóri þáttar getur ekki framfylgt landslögum [...] þá sé hann ekki hæfur í starfið. [Leturbreyting mín]
Lykilorðið er háttarsögnin „geta“. Þetta snýst með öðrum orðum um getu Egils Helgasonar til að framfylgja jafnréttisáætlun RÚV (og jafnréttislögum). Geti hann framfylgt þeim, er hann hæfur, geti hann það ekki, er hann óhæfur. Niðurstaðan er einföld. Það er alfarið í höndum Egils Helgasonar sjálfs að sýna fram á það að hann sé hæfur í starfið. Lokaorðin í „svarbréfi“ hans sýna það hins vegar og sanna að hann hefur engan áhuga á því. Hann hefur þar með dæmt sjálfan sig óhæfan.

Ég held að það hefði verið affarasælla fyrir Egil Helgason að setjast niður og hugsa málið áður en hann hljóp upp til handa og fóta, dró umræðuna (með hjálp Jakobs Bjarnars Grétarssonar) niður á persónulegt, lágkúrulegt og ómálefnalegt plan, og byrjaði að væla í annarra kommentakerfum.

2011-03-18

Kiljan og konurnar

Sprengjan féll í gærkvöldi og springur vonandi í dag.

Fréttatíminn er nefnilega kominn út og á blaðsíðu 31 er grein sem tuttugu og sjö manns skrifa undir, karlar og konur, áhugafólk um bókmenntir og jafnrétti.

Meðal þeirra sem skrifa undir skjalið er Sigurbjörn (eða alter egó Sigurbjarnar öllu heldur). Greinin fjallar um kynjabundið misrétti í þættinum Kiljunni sem RÚV sendir út og eru viðbrögð við dræmum undirtektum sem við sem höfum skrifast á við Egil Helgason höfum fengið.



Það er hægt að ná allan Fréttatímann hér og PDF-útskrift af bréfinu er hér.

Stuðboltakveðjur!

ES. Egill Helgason heldur að hann svari greininni þegar hann skrifar „um kynjahlutföll í bókmenntaheiminum“. Enn á ný sýnir hann að hann skilur hreinlega ekki hvað við erum að fara fram á. Við erum ekki að tala um kynjahlutföllin í bókmenntaheiminum. Við erum að tala um kynjahlutföllin í Kiljunni. Við erum að tala um að karlar fá meiri umfjöllun en konur.

En í alvöru talað, Egill. Áttu við að Gerður Kristný hefði bara átt að halda kjafti og vera þakklát fyrir að hafa fengið jafnmikla umfjöllun í Kiljunni?
Svo má nú bæta því við að í hópi þeirra fimm „Nýhílista“ (mér skilst að sé búið að leysa þann félagsskap upp) sem skrifa undir greinina eru hvorki meira né minna en þrjár konur.

Þar að auki fer hann með rangt mál í þessu blessaða bloggi sínu, en ég ætla að leyfa öðrum að tjá sig um það.

Svar Egils sýnir og sannar að hann hefur engan áhuga á því að hlusta á skoðanir annars fólks, hvað þá taka til sín réttmæta gagnrýni.

2011-03-10

Konur í Kiljuna! - Annar hluti

Sigrún Stefánsdóttir svaraði mér. Hún treystir Agli Helgasyni „til þess að gæta jafnvægis milli kynjanna eftir því sem mögulegt er hverju sinni“.

Ég skil þetta svo að henni sé skítsama þótt Egill tali bara við og um karla í þáttunum sínum.

Þess vegna svaraði ég henni:

2011-03-09

Konur í Kiljuna!

Sigurbjörn hefur sent umsjónarmanni Kiljunnar og dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins tölvuskeyti:



Ég fylgist spenntur með svörunum!

Og þau létu ekki á sér standa, Egill Helgason er greinilega skjótur til svara þegar maður snertir viðkvæman punkt. Hann heimilar þó ekki birtingu á svörum sínum en þau eru því miður á eina leið.

Egill hefur miklar áhyggjur af því hversu lítið sést til gamals fólks í sjónvarpinu svo hann ætlar að bæta úr því í kvöld með því að ræða við einhvern níræðan karl. Svo segist hann ekki vilja svara neinu öðru fyrr en ég geri betur grein fyrir mér (eins og þess þurfi, það ættu nú flestir að vita núorðið hver ég er, djók ... eða ég vona ekki). En Egill Helgason er alla vega ósammála því að hlutfall kvenkyns viðmælenda í þættinum hans fari aldrei upp fyrir 15%. Ég skora á hann að gera betur grein fyrir máli sínu!

Í kvöld verður bara rætt við karla.
2. mars var ein kona viðmælandi, annars var bara rætt við og um karla.
23. febrúar var ein kona viðmælandi, annars var bara rætt við og um karla.

Ég gæti alveg haldið áfram en niðurstaðan yrði bara sú sama: Hlutfall kvenkyns viðmælenda í sjónvarpsþættinum Kiljan er mjög lágt og Ríkisútvarpinu til háborinnar skammar. Sem ríkisstofnun er Ríkisútvarpið bundið af jafnréttislögum og ég gæti helst trúað því að Egill Helgason brjóti þau ansi duglega við val sitt á viðmælendum. En ég er ekki löglærður maður svo ég læt aðra um að dæma það.

2011-03-08

Guðný er brjáluð!

Guðný er rosalega reið. Hún er alveg brjáluð bara.

Guðný skilur nefnilega „ekki fólk sem hefur sig í að hafa skoðanir á öllu“.

Fólk sem hefur skoðanir er „bandbrjálað“, eins og Guðný, nema munurinn er að Guðný nennir ekki að hafa skoðanir á neinu, ekki einu sinni Icesave. Samt hefur hún skoðanir á öllu. Hún er orðin svo þreytt á femínistunum og krossferð þeirra gegn blaðurbloggunum að hún vill helst af öllu bara leggja sig. Hún getur ekki ímyndað sér annað en að það krefjist mikillar orku og tíma að hafa aðrar skoðanir en hún. Það þarf reyndar ekki að hafa aðrar skoðanir en hún, það er nóg að hafa skoðanir, og Guðný missir allan mátt. Guðný, fáðu þér lýsi og þú hressist vonandi aðeins.

Jæja, svo eigum við að vorkenna Guðnýju aðeins. Ekki nóg með að helvítis femínistarnir séu á hælunum á henni eins og híenur,  það er svo óskaplega mikið að gera hjá henni við að skrifa pistla fyrir drottningarnar að hún hefur ekki fengið að sjá systurdóttur sína í tvær vikur! Hvernig fer Guðný að þegar hún eignast börn sjálf? Nei, annars ... hún ætlar ekki að eignast börn. Hún hefur ekki tíma til þess. Guðný ætlar að ættleiða.

Á meðan stjórnmálamennirnir leysa Icesave (þótt Guðnýju finnist þeir kannski ekkert standa sig neitt rosalega vel) og femínistarnir (sem Guðnýju finnst að mættu kannski fussa og sveia aðeins minna) berjast fyrir réttindum hennar, vill Guðný nota frítímann í eitthvað uppbyggilegra en gagnrýni. Hún vill skemmta sér. Hún vill eiga kökuna og éta hana líka.

Guðný, ég hlæ.