2010-12-04

Hlín Einars fær aðdáendabréf

Hlín Einars fær að eigin sögn ágætis viðbrögð við pistlunum sínum. Það er kannski vegna þess að fólkið sem les pistlana hennar er á sömu bylgjulengd og hún. Við hin, sem slysumst til að lesa þá, og búum kannski ekki á sama rósrauða skýi og Hlín nennum ekki að bregðast við þeim. Fyrr en við fáum nóg.

Hlín birti um daginn lista yfir tíu atriði sem konur þola ekki við karlmenn (hann er ekki nefndur hér, en ef þannig liggur á mér á ég áreiðanlega eftir að rýna í hann líka). Í kjölfarið fékk hún víst nokkur skeyti frá karlmönnum þar sem þeir útlista hvaða þættir í fari kvenna þeim leiðist. Hlín birti eitt þessara tölvuskeyta en virðist ekki hafa áttað sig á því að það var skrifað í gríni. Listinn er engu að síður stórmerkilegur því hann er fullur af fordómum en það sem einkennir hann ef til vill einna mest er að atriðin þurfa ekkert endilega bara að eiga við um konur. Þau eiga flestöll líka við um karla. Tökum dæmi:

Kona sem er of stútfull af alvarleika og getur ekki slegið á létta strengi eða haft húmor fyrir sjálfri sér og lífinu, er kona sem er þegar búin að ákveða að enda sem einmana piparjónka með 15 ketti og sápuóperu í imbanum!
Snúum þessu við og veltum því aðeins fyrir okkur hvað liggur að baki orðunum:
Karl sem er stútfullur af alvarleika og getur ekki slegið á létta strengi eða haft húmor fyrir sjálfum sér og lífinu, er karl sem er þegar búinn að ákveða að enda sem einmana piparsveinn með 15 gullfiska og klámmynd í imbanum!
Síðasta atriðið á listanum er hreint út sagt stórkostlegt:
„Vopn" kvenna sem oftar en ekki hefur verri afleiðingar fyrir stelpurnar sjálfar en karlmennina. Stundum mætti halda að kona sem beitir þessu, átti sig ekki á því að hún er ekki sú eina í heiminum með leggöng og munn. Að mínu mati er bara ein löggild ástæða fyrir notkun þessa „vopns" og það er þegar karlmaður er vondur við konuna sína (ofbeldi eða framhjáhald). Allar aðrar ástæður eru afsakanir og framlenging á fáfræði. Það er sannað að kynlíf er streitu- og spennulosandi, og af hverju að neita sér (og karlmanninum) um það? Mjög einfalt, kona sem notar þetta „vopn" reglulega getur allt eins kvatt karlinn sinn, því ófullnægður karlmaður er ósáttur karlmaður. Hence, if you don't do it, another woman will! Þetta á einnig við þegar kona er ófullnægð (líkamlega eða sérstaklega andlega) í sambandi, þá skapast árekstrar sem leiða til erfiðleika og hugsanlegra sambandsslita seinna meir. 
Einmitt! Ef þú ert kona og ert í sambandi við karlmann er eins gott að þú bara fórnir líkama þínum fyrir hann. Veitir honum ótakmarkaðan aðgang að þér. Leyfir honum að nota þig að eigin lyst. Gleymdu sjálfri þér og hleyptu honum inn. Ef þú segir nei, finnur hann sér bara aðra konu. Í mínum heimi kallast þetta nauðgun.

Það leynast fleiri gullkorn í listanum, ritarinn virðist til dæmis misskilja fullkomlega hvað jafnréttisbaráttan gengur út á, því „[e]f jafnrétti væri í raun það sem þessar blessuðu konur væru svo ákafar í að berjast fyrir, væru þær að gera meira á þeim sviðum þar sem réttindum karla er einnig ábótavant.“

Ég er kannski svona vitlaus og óupplýstur, en mér finnst réttindum karla ekkert mjög ábótavant, beri maður það saman við bágborin réttindi kvenna. En það væri kannski léttara að mætast á miðri leið ef karlar létu sig málið varða og tækju meiri þátt í umræðunni í stað þess að stimpla alla femínista sem karlahatara.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hæ hó,

piparsveinn er aldrei „einmanna“

lýsingarorðið einmana er ekki stýrt af kyni og ætti því að falla vel að þeim hugmyndum sem þú reifar um jafnrétti…

Sigurbjörn sagði...

Þakka ábendinguna.

Tinna sagði...

Þúsund sinnum takk(!) fyrir að halda úti þessari síðu og vega upp á móti vitleysunni sem allt of margir lesa. Eins og þú segir eru margir sem eru ósammála en nenna ekki að bregðast við þessum pistlum, því er ómetanlegt að þú gerir það.

Sæsi sagði...

Sæll og "áhugaverð" sýn á pistilinn. Guði sé lof er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og viðra þær! ;)

Ritarinn (sem í þessu tilviki er ég), er þvert á móti vel að sér í ýmsum málum, þ.m.t. jafnrétti og raunverulegri jafnréttisbaráttu. Kannski ertu pínulítið óupplýstur, en þegar kemur að því að beita "kvenréttindakortinu" í hvívetna og reyna þannig að knýja fram "kynjakvóta" svo fátt eitt sé nefnt, er vitað mál (hefði ég talið fyrir flesta sem kynna sér málin?) að umr. baráttuaðilar eru á villigötum.

Óneitanlega má fjölmargt betur fara í jafnréttisbaráttu, og heilmargt sem má laga þegar kemur að réttindum kvenna. En til að nefna dæmi á móti, (til að fræða þig pínulítið þar sem þú virðist ögn óupplýstur?) þá er það hrein mismunun (endilega leiðréttu mig ef rangt reynist) að ætlast til þess að í fleiri nefndum og í fleiri stöðum sitji fleiri konur, og að kynjahlutföll verði jöfn, en ekkert er minnst á að í jafnréttisnefnd situr einn karlmaður? Hvar er jafnréttið þar, og hvar eru kröfurnar um fleiri karlmenn þar?

Þetta er bara eitt léttvægt dæmi, og eins og ég gat um áðan, þá er alveg mál að kynna sér þessa hluti í stað þess að gleypa allt sem kemur í miðlum um mismunun kynjanna. Er það ekki annars tilgangurinn með gagnrýnissíðu? :)

Hvað varðar óbeina fullyrðingu þína á fordómum, þá legg ég til að þú fléttir upp orðunum "fordómar" og "grín" eða "spaug", og hver veit, kannski áttarðu þig á hvert hið alvörugefna megin inntak pistilsins er : Bæði kyn hafa galla, sem geta verið óþolandi, og að skrifa um annað kyn án hins gefur skakka sýn af heildarmynd þess sem skrifað er um!

Það þarf engan snilling til að átta sig á að nær allir (ef ekki allir) upptaldir hlutir á mínum lista og hugsanlega Hlínar, geta átt við bæði kynin.

Minn pistill var aldrei hugsaður til birtingar neitt í pistlahorni Hlínar, heldur þvert á móti bara persónulegt svar þar sem slegið er svolítið á léttari strengi og dregið úr biturleikanum sem virtist fylgja pistlinum um "10 hluti sem konur þola ekki við karlmenn". Hafirðu tekið hann svona alvarlegan, eins og virðist vera, held ég að það sé mál að draga aðeins úr alvarleikanum og víkka sjóndeildarhringinn þegar kemur að húmor eða kímni almennt.

Síðasta atriðið á listanum sem þú telur upp, er ekki ýjað að sem "gefðu og gerðu allt sem maki þinn vill" eins og þú, á svo "fágaðan" hátt gefur í skyn, heldur ábending um þau ýktu tilvik og dæmi í samskiptum kynjanna sem aðrir virðast þekkja af eigin raun og reynslu. Ef þú ert svo heppinn (eða óheppinn?) að hafa aldrei upplifað neitt slíkt, þá bið ég þig vel að lifa, en þá vantar enn töluvert upp á þína lífsreynslu kæri vin. :)

Til að koma einu áleiðis í lokin, vil ég undirstrika að ég styð ekki nauðgun eða álíka, né heldur mismunun á einn eða annan hátt, í hvaða mynd eða formi sem það birtist. Að halda öðru fram eða gefa það sterklega í skyn lýsir öðru af tvennu : Fáfræði eða misskilningi! ..ég ætla að leyfa mér að halda að það síðara eigi við í þínu tilviki.

Þakkir annars fyrir ágæt skrif! :)

Sæsi sagði...

Leiðrétting :

Fyrri skrif um jafnréttisnefnd var byggt á mínum misskilning á öðrum tengdum málum. Hinsvegar er "jöfnu kynjahlutfalli" ábótavant á sviðum í Jafnréttisráði. Það leiðréttist hér með! :)

Nafnlaus sagði...

því fer fjarri að það sitji bara einn karl í jafnréttisráði, enda var það fyrsta opinbera nefndin sem kveðið var á um að skipa skyldi eins jöfn hlutföll karla og kvenna og hægt er. Hvernig væri að horfa á nefndir á öðrum sviðum áður en farið er að agnúast út í þessar örfáu þar sem konur eru í meirihluta?

Takk annars fyrir fín skrif, Sigurbjörn.

Sigurbjörn sagði...

Sæll Sæsi,

Þakka þér fyrir athugasemdina. Ég er sammála þér að mörgu leyti en ég sé samt ástæðu til þess að svara nokkrum af punktunum sem þú tekur upp.

Fyrst það sem þú skrifar um kynjahlutfall hjá Jafnréttisráði. Þar sitja fjórir karlar í ellefu manna nefnd. Af tíu varamönnum eru fimm karlar. Hjá Jafnréttisstofu starfa sex manns auk jafnréttisstýru. Tveir starfsmanna eru karlar. Getur verið að kynjamismunurinn stafi af þeirri einföldu ástæðu að karlar hafa ekki haft áhuga á að vinna við jafnréttismál? Ég hef átt samskipti við Jafnréttisstofu í máli þar sem mér fannst réttindum karla vera ábótavant og fékk ekkert annað en góðar viðtökur.

Ég er ekki sammála þér um að kynjakvóti feli í sér hreina mismunun. Þvert á móti er kynjakvótinn ágætis tæki til þess að jafna hlut kynjanna. Ég held ekki að neinn láti sér detta það í hug að hlutföll kynjanna eigi eftir að verða 50/50 í öllum nefndum og stjórnum. Lykilorðið hér er að jafna. Eðli málsins samkvæmt eru fleiri konur í Jafnréttisráði en karlar en það á vonandi eftir að breytast með auknu jafnrétti (þótt margt hafi færst til batnaðar, er enn langt í land). Kynjakvótanum hefur líka verið beitt í Noregi og þar hafa menn jafnvel rætt það hvort eigi að sekta fyrirtæki sem jafna ekki hlutfall kynjanna í stjórnum sínum. Það gaf góða raun og hvergi í heiminum er hlutfall kynjanna jafnara í stjórnum einkafyrirtækja.

Þú segir að pistillinn þinn hafi aldrei verið hugsaður til birtingar, en þú hlýtur samt að hafa gert þér grein fyrir því þegar þú sendir henni hann að það gæti gerst að hún myndi birta hann, eða? Þegar hann birtist bættist hann í hóp pistla sem draga fólk í dilka eftir kyni, gefa steríótýpíska mynd af karlmönnum sem ég þekki sjálfan mig ekki í. Þess vegna gagnrýni ég hann. Öllu gamni fylgir alvara og ég hef ágætishæfileika til þess að greina hvað er fyndið og hvað er ekki fyndið. Það getur alveg verið að pistillinn sem þú skrifaðir sé fyndinn, en í samhenginu sem hann birtist í er hann það því miður ekki.

Ég gleypi ekki neitt sem kemur í miðlum um mismunun kynjanna. Allt sem ég skrifa byggist á eigin reynslu og skoðunum (mér hefur líka verið neitað, og ég hef neitað). Það gefur augaleið að ég get haft rangt fyrir mér og ég ætla þá rétt að vona að mér sé bent á það. Haltu áfram að gagnrýna mig! Það hjálpar mér að skrifa betur.

Nafnlaus sagði...

"Hlín Einars fær að eigin sögn ágætis viðbrögð við pistlunum sínum. Það er kannski vegna þess að fólkið sem les pistlana hennar er á sömu bylgjulengd og hún. Við hin, sem slysumst til að lesa þá..."

Vil benda þér á vinsældalista pistlahöfunda neðst á forsíðu Pressunnar, þar er Hlín búin að vera í fyrsta sæti síðan hún byrjaði að setja inn þessa pistla svo þessar vinsældir hennar eru ekki eitthvað sem hún er að búa til. Þú getur líka séð hversu mörg "like" hún fær á pistlana sína og borið saman við "like" sem aðrir pistlar fá, þar er oft gríðarlegur munur á.
Þú segir að vinsældir hennar séu tilkomnar af því að þeir sem lesa pistlana hennar sé fólk sem er á sömu bylgjulengd og hún (sem er þá ansi mikill fjöldi fólks) nema þeir sem "slysast" til að lesa... Hmmmm..., það er alveg hægt að slysast til að smella á eitt og annað en það slysast enginn til að lesa heilan pistil. Og þú hefur greinilega "slysast" aðeins of oft til að opna pistlana hennar og til að lesa þá alla líka fyrst þú getur tekið hvern og einn fyrir sérstaklega.
Er alls ekkert að setja útá gagnrýni þína, það getur vel verið að hún eigi rétt á sér en mér finnst kannski fullmikið að opna sérstaka síðu til að gagnrýna skrif einnar manneskju. Hefurðu ekki eitthvað annað betra að gera við tíma þinn en að skíta yfir allt sem þessi kona segir?
Ef orð hennar eru svona ofboðslega ómarktæk hvers vegna ertu þá að leggja allt þetta á þig til að reyna að sýna fram á það? Myndu orð hennar þá ekki dæma sig sjálf? Finnst miklu meira vit í að þú hættir bara að lesa það sem þér þykir vera bull og farir í staðin að skrifa sjálfur um samskipti kynjanna á Pressunni, út frá sjónarhorni karlmanna, án þess að vera að eltast við allt sem hún segir.

Sigurbjörn sagði...

Þakka þér fyrir ábendinguna og að þú skulir hafa svona miklar áhyggjur mér. Ég get huggað þig með því að ég eyði ekki miklum tíma í þetta, kannski hálftíma á dag. Og ég ætla nú ekkert að hætta þegar ég er búinn að skíta yfir Hlín (málefnalegt af þér að nota svona falleg orð um tilraun mína til þess að koma af stað umræðu um þessi málefni). Hún er bara fyrst í röðinni.

Kristín Jónsdóttir sagði...

Ég skil ekki af hverju ekki má opna umræðu um þessi mál, af hverju fólk þarf að rísa upp með skít og leiðindi, gera lítið úr fólki.
Sem er nú einmitt það sem bæði Hlín og Pjattrófur gera endalaust með því að draga fólk niður í þessar staðalmyndir sem margir því miður halda að þeir eigi að trúa á, og leitast við að samsama sig þeim. Þessar staðalmyndir eru tilbúningur tísku- og snyrtivöruiðnaðarins. Óánægð kona kaupir meira af drasli en ánægð (kafloðin og akfeit mussu-)kona. Gat ekki haldið í mér með staðalmynd rauðsokkunar, sorrí (ég er hér með hætt að nota orðið femínisti, þar sem búið er að gjaldfella það endanlega).

Helga sagði...

Mikið er ég ánægð með þetta blogg. Hér er skrifað af viti.

Meira svona! :)


og frábært hvað margir sækja hingað til að verja kynjaíheldnina. Ég sé það mjög jákvæðum augum að and-feministar reyni að kynan sér málin og rökstyðja eigin hugmyndir

Nafnlaus sagði...

Ég spái því að Sigurbjörn sé kona að skrifa með grímu karlmans.

Tel það nokkuð ljóst.

Nafnlaus sagði...

Takk kærlega fyrir að byrja þetta blogg, löngu komin þörf fyrir þessa gagnrýni, fólk er að tapa sér yfir einmitt þessum staðalímyndum sem Hlín og fleiri eru að blogga um, það er ekki þverfótað fyrir þessu kjaftæði í netheimum.. .Gjörsamlega og algjörlega óþolandi.

kveðja
kvenmaður og það fallegur en ekki ljót og bitur eins og allir halda að maður sé ef maður sættir sig ekki við að lifa undir þessum staðalímyndum ;)