2010-12-17

Vala fær flensu

Ég ætlaði að skrifa um pistilinn hennar Völu um það hvernig karlmenn eigi að hegða sér þegar kærastan er veik, en ég kemst betur og betur að því eftir því sem ég les pistilinn oftar að hann fjallar ekki um neitt svo ég hef eiginlega ekki annað að segja en þetta:

1. Ég efast um að Pjattrófurnar þekki nógu marga karlmenn til þess að geta fullyrt nokkuð um það hvort karlmenn hafi það í eðli sínu að hugsa um aðra og hjúkra þeim sem eru veikir eða ekki. Í mínum heimi hefur meðaumkun lítið með eðlismun á körlum og konum að gera. Þær eru áreiðanlega jafnmargar konurnar sem gefa skít í að hjúkra körlunum sínum þegar þeir eru veikir. Það að allir kærastar Völu virðast hafa hundsað hana í veikindum hennar segir meira um val hennar á karlmönnum en um karlmenn.

2. Vala heldur því fram að eitt stærsta prófið sé það hvernig kærasti kemur fram við konuna sína þegar hún er veik. Vala hefur greinilega misst af einhverju því í raun og veru er stærsta próf karls hvernig hann kemur fram við kærustu sína. Punktur - og svo snúum við við - stærsta próf konunnar er hvernig hún kemur fram við kærasta sinn. (Við skulum halda þessu á kærastaplaninu, á sama plani og Pjattrófurnar, hálffertugar og -fimmtugar, vilja halda því. Þær eru svo lausar og liðugar, skuldbindingalausar og bera enga ábyrgð.)

3. Mikilvægast í huga Völu eru rétt viðbrögð því þegar maður er lasinn „verður maður sérstaklega viðkvæmur“. Það verður að hjúkra og þegar maður les pistilinn skilur maður að í heimi Völu eru karlmenn ófærir um það. Hvað þá að hugsa, taka eigin ákvarðanir eða bera ábyrgð á gjörðum sínum. Afgangurinn af pistlinum eru misyfirborðskennd ráð um það hvernig karlmenn eiga að hegða sér þegar kærastan þeirra er veik. Og kirsuberið á marengstoppnum er jafnréttisjöfnunin, því allt það sama gildir um konur þegar kærastarnir þeirra eru veikir, nema maður á ekkert að vera að hringja of oft og það þarf ekkert að gefa þeim blóm ... Vala veit áreiðanlega margt um það hvernig hún vill láta koma fram við sig þegar hún er veik. En það sem hún á kannski mest ólært er að ekki allar konur eru eins og hún og ekki allt er hægt að útskýra út frá því hvort maður hafi eitthvað hangandi á milli lappanna á sér eða ekki.

E.S.
Þessi færsla var skrifuð af skyldurækni og er þar af leiðandi illa skrifuð. Það gerist ekki aftur.

Engin ummæli: