2011-01-03

Ég er frá Mars, Hlín Einars er frá Snickers

Hlín Einars les það sem hún kallar „þýðingarrit“, það er bækur um samskipti kynjanna sem hafa verið þýddar yfir á íslensku, eins og Karlar eru frá Mars, konur eru frá Venus, til þess að komast að því hvernig karlmenn hugsa. Mig skal ekki undra að hún sé engu nær um það eftir lestur þannig bókmennta. Henni datt samt það snjallræði í hug að komast heldur að því hvað „raunverulegir, einlægir karlmenn“ hefðu að segja. Þá veltir maður því fyrir sér hvort hún stundi hugsanalestur því eins og við vitum öll geta karlar og konur ekki verið vinir, hvað þá átt samskipti án þess að tilfinningarnar beri viðkomandi yfirliði. Eins og svo oft áður fjallar pistillinn eiginlega um eitthvað allt annað en það sem maður heldur að hann eigi að fjalla um þegar maður byrjar að lesa hann. Hlín á nefnilega frekar erfitt með að halda sér við efnið. Ef pistillinn fjallar um eitthvað þá fjallar hann um skoðanir Hlínar á karlmönnum og hvernig henni finnist að karlmenn eigi að hugsa.

Það sem kemur Hlín einna helst á óvart er að karlmenn geti orðið þreyttir á kynlífi eða að þeim finnist það allt í lagi að stunda ekki kynlíf. Sumum gætu þótt dæmin sem hún nefnir heldur öfgakennd, en það sem furðar mig mest er að það þarf alltaf að vera einhver afsökun fyrir því að karlar hafi ekki áhuga á því að eðla sig sinkt og heilagt. Þeir þurfa að þykjast sofa þótt þeim finnist kynlíf alveg „frábær líkamsrækt“. Það er fyrirfram ákveðið að það sé karlinn sem hafi meiri þörf fyrir að gera það og það er afbrigðilegt að konur geti haft meiri kynhvöt en karlar. Hinar öfgarnar eru að það þurfi að vera eitthvað að hjá manni sem finnst allt í lagi að hafa ekki sofið hjá kærustunni fyrstu mánuðina sem þau eru saman. Það hlýtur að vera jafnmisjafnt og pörin eru mörg. Eða?

Tæpum mánuði áður en Hlín birti pistilinn um leyndarmál karlmanna birti hún pistil um alfa- og betakarla, þar sem hún heldur því fram að jafnréttisbaráttan hafi ruglað karla svo rosalega í rýminu að þeir hafi týnt karlmennskunni í sjálfum sér ... Núna tekur hún annan pól í hæðina, því allt í einu eru það „kynjaímynd[irnar]“ sem hafa valdið því að „[s]umum karlmönnum stendur ógn af“ þeim körlum sem Hlín hefur skilgreint sem alfakarla, þ.e. körlunum sem konur hænast að, þessum sem vernda þær og gera þeim kleyft að finna fyrir konunni í sjálfri sér. Hlín skrifar að „[k]arlmönnum finn[i]st þeim oft þröngur stakkur sniðinn hvað varðar samskipti“. Einmitt Hlín. Og hafirðu ekki áttað þig á því, þá ert það þú sem saumar spennitreyjuna með útfryminu sem þú eyst út á Netið.

„Karlmenn vilja leyfa konum að vera eins og þær eru“. Karlar hugsa örugglega jafnólíkt og þeir eru margir. Það er örugglega til fjöldinn allur af karlmönnum sem vildu óðir og uppvægir breyta konum sínum. Og öfugt. Þú tilheyrir þeim hópi kvenna sem vildu helst breyta karlmönnum þannig að þeir pössuðu í spennitreyjuna þína. Það kallast að bera ekki virðingu fyrir öðrum. Það kallast líka andlegt ofbeldi.

PS. Hlín, það kemur mér ekki við að þú eyðir vinum af Facebook, eða að þú bjóðir karlmönnum ekki á stefnumót. Það tengist því heldur ekki neitt hvaða leyndarmál ég á mér eða hvernig ég hugsa.

3 ummæli:

Dóri sagði...

Þetta á kannski ekki heima hérna en ég vildi bara benda á enn eina hræsnina hvað varðar konukvöldin (þ.e. að það sé í lagi að konur horfi á karlkyns strippara):
http://superman.is/component/gallery/album/419
Ekki hef ég ennþá heyrt neinn feminista tala gegn þessu...

Nafnlaus sagði...

Skil ekki alveg afhverju ætlast er til þess að femínistar, sem berjast fyrir réttindum kvenna, ættu að berjast fyrir réttindum karla líka.

Dóri sagði...

Tja kannski vegna þess að það er yfirlýst stefna Femínistafélags Íslands?
T.d. samkvæmt http://www.feministinn.is/?page_id=3

# Að vinna að jafnrétti kynjanna.
# Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar, lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi.

En þetta virðist gleymast og vera meira í ætt við það sem þessi er að tala um:
http://feministi.blog.is/blog/feministi/entry/128090/