2011-03-21

Yfirlætislegt mansplaining

Ég fékk eitt það fallegasta hrós sem ég hef fengið núna rétt áðan. Bergsteini Sigurðssyni finnst það sem ég skrifa vera yfirlætislegt mansplaining

Ég átti von á þessu. Það er nefnilega þannig að þegar fólk fer yfir einhverja fyrirfram ákveðna línu leita aðrir að skýringum fyrir því hvers vegna. Karlmaður getur ekki verið einlægur femínisti. Það er mansplaining.

Ég hugsaði um þetta um daginn. Hvað ef það sem ég skrifa hérna verður túlkað sem mansplaining? Þá hætti ég. Þessi gagnrýni á nefnilega alveg örugglega rétt á sér, en það hefur aldrei verið ásetningur minn að vera yfirlætislegur. Ég hef heldur reynt að vera einlægur.


En hvað er mansplaining? Það eru niðurlægjandi, ónákvæmar útskýringar sem eru settar fram af miklu öryggi og vissu um að sá sem útskýrir hafi rétt fyrir sér, af því að hann er karlmaður.

Ég leyfi ykkur að dæma, en ég hef af öllum mætti reynt að vera ekki niðurlægjandi og ekki persónulegur. Ég hef gagnrýnt röksemdafærslur og reynt að benda á hvar röksemdafærslurnar ganga ekki upp. Ég hef reynt að sneiða hjá ónákvæmum skýringum, en ég neita því ekki að það sem ég hef skrifað hef ég skrifað af miklu öryggi. Það sem ég hef skrifað eru einfaldlega skoðanir mínar og þær falla eins og allt annað í misjafnan jarðveg. En þær eru ekki mansplaining.


Ég hef aldrei reynt að leyna því hver ég er, það er nógu margt fólk í kring um mig sem hefur vitað það allan tímann hver ég er. Ég lofaði samt sjálfum mér að ég myndi hætta þessu um leið og einhver myndi tengja þessa síðu réttu nafni mínu. Það hefur nú gerst en ég ætla ekkert að hætta. Mér er skítsama þótt einhverjum öðlingi þyki það sem ég skrifa vera yfirlætislegt mansplaining.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnar Hrafn

Hafir þú viljað halda áfram að bauna á fólk út í bæ í skjóli nafnleyndar hefðurðu betur sleppt því að setja fram upplýsingar á vefinn þinn sem gera það frekar auðvelt að komast að hver er á bakvið hann (einn af höfundum bréfsins í Fréttatímanum, fæddur sama dag og Berlusconi - þetta var ekki mikið mál).

Mér finnst annars aðdáunarvert að þú ætlir að halda áfram að blogga þrátt fyrir að fólk viti hver er á bakvið vefinn. Að halda úti bloggsíðu undir eigin nafni krefst hugrekkis. Ég meina, þú gætir lent í því að þurfa að gangast við eigin skrifum og skoðunum.

Mér finnst satt best að segja að það ætti að efna til verðlauna helguð nafnlausum bloggurum sem sýna þann hetjuskap að halda áfram að skrifa eftir að hafa verið nafngreindir. Það mætti kalla þau Sigur-Björninn - verðlaunagripurinn gæti lítið, sætt bangsaskinn, sem sigri hrósandi teygir hramma sína til himins.

Með kveðju
Bergsteinn Sigurðsson

Sigurbjörn sagði...

Ég skrifaði þetta einmitt inn svo forvitið fólk eins og þú gæti eytt tíma sínum í það að gúgla. Það hefði samt alveg verið nóg að spyrja. Þú ert nefnilega ekki fyrstur til þess að komast að því hver ég er þótt þú sért fyrstur til þess að básúna því út um allt.

Ég hef hreina samvisku, með eða án nafnleyndar, og hef ekkert á móti því að þú gagnrýnir mig. Mér hefði bara þótt betra hefðir þú gert það einhvers staðar annars staðar en þú gerðir.

Það að þú kallir það sem ég geri að „bauna á fólk út í bæ“ sýnir mér að þú hefur ekki hugmynd hvað þessi síða gengur út á.

Sigur-Björninn, er það ekki bara einhver útvatnaður Öðlingur?

hildur sagði...

Ég lagði ekki alveg í að kommenta á þessa umræðu hjá Gerði, þar sem mér fannst vera svolítill hiti í fólki, en það er svolítið sem ég hef verið að velta fyrir mér í sambandi við gagnrýni; Er hægt að gagnrýna án þess að setja sig um leið á svolítið háan hest?

Því með því að segja "nei þú hefur ekki rétt fyrir þér af því að..." þá er maður um leið að segja að maður telji sig hafa réttara fyrir sér en sá sem maður gagnrýnir og er því um leið að skipa sér og sínum skoðunum skör hærra.

Og er það ekki bara stundum allt í lagi, sér í lagi ef færð eru rök fyrir téðum skoðunum?

Því annars væru allir bara alltaf sammála og hvar er fúttið í því?

Sigurbjörn sagði...

Er öll gagnrýni þá yfirlætisleg?

Það getur vel verið að ég setji mig á háan hest þegar ég gagnrýni Egil Helgason, Margréti Hugrúnu, Hlín Einars, Helga Jean, og svo mætti lengi telja. En mér finnst það nauðsynlegt af því að heimsmynd þeirra útilokar ákveðna hópa í þjóðfélaginu, hvort sem það eru konur eða karlar.

Mér finnst það fara eftir því hvernig maður gagnrýnir. Ég gagnrýni ekki til þess að hefja sjálfan mig yfir aðra, vona ég alla vega.

Gyða sagði...

Gaman að lesa að þú skulir ætla halda áfram að blogga, Sigurbjörn. Mér er eiginlega alveg sama hvort þú kemur fram undir nafni eða ekki, boðskapurinn er svo þarfur og sannur að hann á fullan rétt á sér, óháð því hver flytur hann.

Mér finnst leiðinlegt að þið Bergsteinn séuð að þrasa, því þið hafið báðir svo margt jákvætt og skemmtilegt til málanna að leggja. Vonandi náið þið bara að leggja það til hliðar.

Áfram, Sigurbjörn!

Nafnlaus sagði...

Ég árétta: Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti "smá dass af hroka" í skrifum fólks, hann getur verið hressandi og partur af því að hafa rökstudda sannfæringu. Með orðunum "velviljuð kona" er Júlía Margrét hins vegar smættuð í nafni kynferðis síns, sem ég fullyrði að karlkyns pistlahöfundur þyrfti seint að þola.

Með kveðju
Bergsteinn

E.s. Nú tók ég ekki þátt í Öðlingsátaki Þórdísar Elvu, en skil ég síðustu athugasemdina í þessari færslu rétt að þú lítir á það sem skammaryrði sem þú notar um þá sem eru ósammála þér?

Nafnlaus sagði...

Hér er annars færsla eftir annan nafnlausan bloggara, sem lítur svo á að karlar geta ekki verið feministar - hvað þá einlægir femínistar.


http://vegidurlaunsatri.blogspot.com/2007/01/konum-sagt-til-af-eim-sem-viti-hafa.html

"Þegar feministar tala saman og einhver karl verður áheyrandi að samtölum þeirra, þá er bókað mál að fyrr eða síðar blandar hann sér í málin [og svo kemur upptalning á því hvernig karlinn reynir að setja ofan í við femínistana]. Allir eiga þeir þó það sameiginlegt að vilja þagga niður í feministum, ekki síst þeir sem sjálfir þykjast vera feministar."


(Þetta er einmitt tekið af þræði Hildar sem kallar þetta "hressandi rím við mainsplaining-umræðuna". Kannski ertu löngu búinn að lesa þetta.)

Með kveðju
Bergsteinn

Sigurbjörn sagði...

Ég veit það vel að þú tókst ekki þátt í Öðlingsátakinu sem mér finns vera veikt og væmið tyllidagahjal sem ber lítinn árangur? Var ekki eitt af markmiðum átaksins að efla jafnréttisvitund karla? Að fá karla til að taka meiri þátt í umræðunni? Átakið snérist upp í múgsefjun, karlar voru dásamaðir fyrir að segja það sem konur hafa sagt í áratugi og enginn hlustað á. Hvað hefur gerst síðan átakinu lauk? Ekkert.

Svo finnst mér lítið vit í því að verðlauna fólk fyrir það að hafa skoðanir. Þess vegna kallaði ég það útvatnaðan Öðling.

Sigurbjörn sagði...

Já, ég var búinn að lesa þetta og ég vona innilega að þetta sé ekki rétt.

Hvað finnst þér?

Nafnlaus sagði...

Nei, ég vona það líka.

bs

Erna Erlingsdóttir sagði...

Það er gott að vilja koma vinnufélögum sínum til varnar. Það er líka gott að fólk hafi augun opin fyrir kynjaðri orðræðu og/eða möguleikanum á að henni sé beitt. En það er óþarfi að oftúlka gagnrýni eins og mér finnst Bergsteinn hafa gert.

Þegar ég las pistil Júlíu í morgun virkaði hann á mig eins og einhvers konar málsvörn fyrir Egil Helgason og það kom fljótt í ljós að fleiri skildu hann þannig. Orðin "alltaf skal einhver velviljuð kona koma körlunum til varnar" voru látin falla í því samhengi. Þau voru höfð eftir annarri konu en mér en ég hafði sjálf hugsað eitthvað svipað.

Ég held að þessi skilningur á pistli Júlíu hafi einkum byggst á eftirtöldum atriðum:
- aðferðafræðin í kiljubréfinu var dregin í efa án rökstuðnings,
- Kviku var blandað í málið og hún eiginlega lögð að jöfnu við Kiljuna með óathugaðri fullyrðingu,
- og svo er það setningin: "Fljótlegast í þessu öllu, er að líta hvorki til hægri né vinstri og beina spjótum að þáttastjórnandanum" sem kemur út eins og Júlía telji gagnrýni á viðkomandi þáttastjórnanda vera einhvers konar frumhlaup að óathuguðu máli.

Ég er ekki ennþá farin að sjá hvað ætti að vera athugavert að takast beinskeytt á við þessi efnisatriði, sem var meginatriðið í bloggfærslunni, og sé ekki að framsetning bloggfærslunnar mótist af því að þar sé karl að gagnrýna konu.

Þar við bætist að í pistli Júlíu bar mjög á svipuðum atriðum og Egill hefur reynt að verja sig með, þ.e.
- áherslu á söguna (sem skýrir ekki t.d. hlutfall viðmælenda í nútímanum, auk þess sem ekki er endilega sjálfgefið að þættir af þessu tagi hljóti að hverfast um fortíðina) og
- áherslu á að víðar sé pottur brotinn.

Hafi það ekki verið ætlun Júlíu að verja Egil sérstaklega, þá hefði kannski verið heppilegra að fækka t.d. órökstuddu fullyrðingunum og eyða í staðinn stærri parti af umræddum 390 orðum í annað.

Nafnlaus sagði...

Ætli það sé ekki tímabært að ég outi mig sem þessi sem lét upphaflega orðin falla um velviljuðu konuna þótt það hafi nú reyndar verið á prívatvettvangi og ég líti ekki svo á að mér beri einhver skylda til þess. Þetta var nú fyrst og fremst einhvers konar dæs, fremur en diss. Og einmitt út af því sem Erna segir, ég túlkaði pistil Júlíu sem málsvörn fyrir Egil. Það gerði ég út af þeim atriðum sem Erna nefnir (takk Erna, þægilegt að hafa þig hérna) og líka út af þessu sem hún segir að Egill sé bakarinn en bókaútgefendur smiðirnir, sem hlýtur jú að þýða að Egill hafi verið hafður fyrir rangri sök og að bókaútgefendur séu hinir einu sönnu sökudólgar en Egill blásaklaus. Það er jú þannig sem maður skilur þetta með að hengja bakara fyrir smið og ég skil satt að segja ekki hvernig ég hefði átt að skilja það öðruvísi.

Hvort ég hef með þessari athugasemd verið að setja Júlíu í hlutverk nytsams sakleysingja skal ég ekki segja, það getur vel verið. Líklega tökum við öll að okkur slík hlutverk af og til og jafnvel önnur enn verri.

Eyja M. Brynjarsdóttir