2011-02-03

Helgi Jean hugsar um kynlíf í sturtunni

Ég á svolítið bágt með að átta mig á tilganginum með pistlinum sem Helgi Jean skrifar á bleikt.is. Ég fæ ekki betur séð en að tilraun Helga til þess að skrifa pistil með jafnréttisívafi mistakist. En þegar öllu er á botninn hvolft snýst hann ekki um neitt annað en það hversu frjálslyndur og fordómalaus Helgi sé. Pistillinn birtist á bleikt.is og sem slíkur verður ekki hjá því komist að draga aðra ályktun en þá að pistillinn viðhaldi úreltum kynjaímyndum:

Það skiptir karlmenn litlu máli þótt konur séu þar sem þeir spankúlera um naktir, en konur myndu aldrei láta sér detta í hug að spígspora allsberar í kringum karlmenn.

Pistillinn fjallar um það að Helgi mætir orðið skúringakonunni í sturtuklefanum í líkamsræktarstöðinni sinni daglega. Hún er ljóshærð og um miðjan aldur og honum finnst bara ekkert mál að hún sé þarna að þrífa meðan hann þrífur sig í sturtunni. Helgi getur samt ekki annað en látið hugann flakka inn í kvennaklefann. Hvað ef skúringakarl væri að störfum þar? Hefði skaftið á moppunni endað í rassgatinu á honum? Hvað á Helgi annars við þegar hann skrifar: „[É]g hef það svona á tilfinningunni að hann myndi enda með skaftið á moppunni, á einhverjum öðrum stað en í lófanum á sér“.

Hvernig ætli sagan hans Helga hefði verið ef skúringakonan hefði verið Ásdís Rán? Fyrirgefið ... það gengur víst ekki. Skúringakonur eru óaðlaðandi, óánægðar, með órakaða píku. Eða hvað? Annars væru þær varla skúringakonur.

Gæti kannski verið að skúringafólk hugsi um eitthvað annað en kynlíf þegar það spúlar sturtuklefa, sama hvors kyns það sé? Kannski ekki í huga Helga, en það er ekki þar með sagt að Helgi sé frjálslyndur og fordómalaus. Helgi er frekar fjötraður í kynjaímyndum sem ala af sér fordóma gagnvart konum. Konur eru ekki manneskjur. Konur eru hlutir sem karl stingur typpinu á sér inn í. Þessi saga er ekkert annað en enn einn bitinn í raðmyndina sem heitir klámvæðing. Meðan Helgi er í sturtu hugsar hann um kynlíf.

Í sænska hernum fara karlar og konur saman í sturtu og enginn kippir sér upp við það. Mér skilst að þetta hafi líka verið gert í leiklistarskólanum á árum áður, og er kannski enn. Hugsa sér! Karlar og konur saman í sturtu og enginn graður!

Ímyndum okkur að Helgi sé í sambandi. Hann á kannski konu, ég veit ekkert um það. Hvað ætli hún hafi hugsað þegar hann sagði henni söguna?

1 ummæli:

Gyða sagði...

Heyr heyr, ég vil fleiri pistla frá þér, Sveinbjörn, þú ert frábær!