2011-05-06

Karlmennskan ytra með mér

Hluti einnar einföldustu skilgreiningarinnar á orðinu kynjamisrétti er: yfirfærsla staðalímyndar karllegra gilda á karla og staðalímyndar kvenlegra gilda á konur (sjá t.d. grein á wikipedia um kynjamisrétti).

Lára Björg birti lista yfir tíu atriði sem upplýsa konur um það hvort þær búi með karlmanni á Pressunni í gær. Listinn hennar Láru Bjargar er enn eitt dæmið um birtingarmynd kynjamisréttis gagnvart körlum í fjölmiðlum í eigu Björns Inga Hrafnssonar. Listinn er líka dæmi um algengustu birtingarmynd kynjamisréttis gagnvart körlum, nefnilega það hvernig karlar eru steyptir í mót staðalímyndarinnar. Listar yfir hvað karlar eiga að gera og hvernig þeir eiga að vera til að geta sannfærst um það að þeir séu nú alveg örugglega karlar og ekki hommar eða kerlingar.

Mér þætti gaman að vita það betur hvernig Lára Björg skilgreinir karlmennsku. Mér þætti til dæmis gaman að vita hvort maður þurfi að uppfylla öll tíu atriðin á listanum hennar til að geta litið á sjálfan sig sem sannan karlmann, eða hvort það dugi að uppfylla eitt, tvö, þrjú. Hvar dregur Lára Björg línuna?

Ég get ekki sagt að ég uppfylli neitt af atriðunum, en ég er sannfærður um að ég er ekkert verri karlmaður eða eiginmaður fyrir vikið.

Svona listar eru yfirleitt birtir til gamans, en þegar birting þeirra er orðin regla frekar en undantekning, þykir mér gamanið farið að kárna ansi duglega.

Engin ummæli: