2011-06-18

Liggjum í skeið

Ég veit ekki hversu gömul Lena Mist er, en af myndinni af henni að dæma er hún varla mikið meira en rétt skriðin úr menntaskóla. Ég efast um að hún hafi langa reynslu af samböndum. Það hefur lítið með aldur hennar að gera, meira með það sem hún skrifar.

Lena Mist treystir sér alla vega til þess að koma með þess konar ráð um samskipti kynjanna að maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi dottið á hausinn.

Í heimi Lenu Mistar eru tvenns konar týpur, undir og yfir. Við gætum allt eins notað termínólógíu ritstjóra hennar og skipt orðinu undir út fyrir beta og yfir fyrir alfa. Yfir stjórnar og fær sínu framgengt (og maður skilur það, þótt Lena Mist nefni það hvergi, að yfir er karl). Undir gefur meira af sér tilfinningalega þótt undir gefi oftar eftir. Undir er kona. Yfir stýrir, undir lætur stjórnast.

Lena Mist hefur þó alla vega náð það langt að hún hefur áttað sig á því að yfir „á það til að gera meiri kröfur en sanngjarnt getur talist“. En yfir gerir þetta ekki af undirlögðu ráði, yfir stjórnast af eðlislægum hvötum sínum.

Og Lena Mist er sannfærð um það að samband þar sem yfir og yfir mætast og undir og undir séu erfið. Hitt er miklu betra, þegar undir og yfir koma saman. Jin og jang. Stjórnar og lætur stjórnast. Og svo liggjum við öll saman í skeið með alheiminum. Og heterónormatíva samfélagið getur haldið áfram að gera það sem því finnst skemmtilegast, að draga fólk í dilka eftir öllum kúnstarinnar reglum. Er það ekki undursamlegt?

Lenu Mist finnst þetta fyrirkomulag svo frábært að hún mælist til þess að við tökum yfir eins og hann er. Leyfum honum að stjórna svo hann geti verið hamingjusamur.
Við erum alltaf að læra að bæta okkur í lífinu og í samskiptum við annað fólk.  Hugsum fyrst og fremst um að gera hvort annað hamingjusamt frekar en að vinna ágreininginn.
Í heimi Lenu Mistar er hlutverk konunnar að láta undan, gefa eftir. Friðþægja, þóknast, þjóna og láta kúga sig. Það eru aldeilis góð hlutskipti eða hitt þó heldur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað er það í þessum pistli sem gefur í skyn að undir sé kona? Finnst þér s.s. að undir geti ekki allveg eins verið karlmaður? Virkar meira eins og þín persónulega skoðun.

Sigurbjörn sagði...

Þetta er ekkert mín persónulega skoðun. Ég túlka bara það sem hún skrifar.