2011-06-20

Klara lifir í heimi blekkingar

Klara er sannfærð um það að það sé ekki til neitt „sem heitir neikvæðar, kvenlegar staðalímyndir“. Það er sjálfsagt vegna þess að hún skilur ekki neikvæða merkingu orðsins staðalímynd.
Í mínum augum er ekkert til sem heitir neikvæðar, kvenlegar staðalímyndir.

Einungis fordæmingarherferðir sem ýta undir skömm og vanlíðan kvenna, sem búa yfir nægu hugrekki til að elska.
Þessi gullkorn féllu í pistli um pakistönsku leikkonuna (og „íslömsku“, eins og Klara kemst svo passandi að orði) fyrirsætuna Veenu Malik.

Myndlíkingin er frumleg. Barátta Veenu Malik fyrir því að fá að lifa í friði fyrir öðrum er myndhverfingin fyrir Klöru og stelpurnar á bleikt.is sem berjast fyrir því að fá að steypa íslenskar konur í mót staðalímyndarinnar óáreittar. Klerkastéttin og tvöfaldar siðgæðisreglur pakistanska samfélagsins eru norrænir femínistar sem gera allt til þess að brjóta niður frelsi kvenna til að hafa þau áhugamál sem þær vilja (ég veit ekki alveg af hverju Klara hefur bitið það í sig að þetta sé raunveruleg agenda íslenskra femínista ... hún hefur alla vega ekki haft mikið fyrir því að sýna fram á það á málefnalegum nótum).
Réttindi kvenna snúast ekki einvörðungu um launajafnrétti, heldur eru að mínu mati, þau réttindi að mega njóta ásta, vera kvenlegar og rækta meðfædda eiginleika sína, án þess að eiga aðkast, samfélagslega fordóma og jafnvel líflát á hættu.
Já, Klara. Auðvitað eiga konur að fá að gera það sem þær vilja. Það er ekki vandamálið með þig og vinkonur þínar. Vandamálið með ykkur er að ykkur finnst að allar konur eigi að vera eins og þið. Klara, það er eitt að hafa áhugamál. Annað að halda að allir aðrir hafi sömu áhugamál og þú hvað þá áhuga á því að heyra sömu vitleysuna endurtekna í sífellu.

Klara veður úr einu í annað. Hún vitnar í Veenu, sem á að hafa sagt í sjónvarpsviðtali að enginn sannur karl leggði hendur á konu. Klara er fullviss um að þetta „þættu eflaust hégómafull [orð] ef kona léti þau falla á Íslandi“. Af hverju? Hvaða hégómi felst í því að benda á að heimilisofbeldi er óviðeigandi? Hvaða merkingu leggur þú í orðið hégómi, Klara? Veistu hvað þú ert að tala um?

Túlkun Klöru á orðum Veenu eru með ólíkindum. Það er ótrúlegt hvernig Klöru tekst að snúa orðum hennar sér og hugðarefnum bleiks.is í vil. Barátta Veenu snýst ekki um það að konur þurfi að afsala sér réttindum til kvenleika. Barátta hennar snýst um það að uppræta kvenfyrirlitningu og það að vera metin að verðleikum til jafns við karla.

Klara þreytist ekki á því að taka það fram að Veena sé hálaunakona. Að hún þurfi ekki að berjast fyrir jöfnum launum. Það er eflaust rétt. En það á áreiðanlega ekki við um allar hinar miljónir kvennanna sem vinna fyrir lúsarlaun í Pakistan, Indlandi og Bangladesh við það að búa til bómullarefnið og sauma fötin sem Klara kaupir fyrir spottprís. Klara ætti kannski að hugsa aðeins um það áður en hún skrifar næsta pistil.

En Klara er föst í einhverjum rómantískum heimi þar sem eina kúgun kvenna felst í því að þær fái ekki að klæðast eins og þær vilja eða sminka sig eins og þær vilja. Grunnhyggnin er í hámarki.

Og nú kemur að kjarna málsins, þegar maður áttar sig á raunverulegum tilgangi þess sem Klara vill koma á framfæri:
Íslamska klerkaveldið sagði Veenu ýta undir neikvæðar staðalímyndir með hegðan sinni, framkomu og útliti og fóru leikar svo að Veena var leidd fyrir pakistanska dómstóla í ríkissjónvarpinu þar ytra, yfirheyrð og spurð í þaula um kynhegðun sína.
Prófið að skipta klerkaveldinu út fyrir femínistana og Veenu fyrir Klöru.

Svo kemur niðurlag pistilsins og ég átti bágt með mig þegar ég las það. Um tíma efaðist ég um að ég væri til og ég komst að því að í hvert skipti sem ég les eitthvað eftir Klöru deyr eitthvað innra með mér.

Tökum hverja málsgrein fyrir sig.
Ég fór að gráta, þegar þessi hugrakka stúlka sagðist hafa vakið athygli Pamelu Anderson á aðstæðum barna í Pakistan. Í augum Veenu er Pamela, sem vinstrisinnaðir hreintrúnaðarfemínistar álíta sem handbendi alls ills, sterk kona sem hefur víðtæk áhrif í vestrænu samfélagi.
Hvaða máli skiptir það hvaða augum Veena Malik lítur Pamelu Andersson? Hvað er hreintrúnaðarfemínisti (ég er búinn að missa töluna á öllum neikvæðu orðunum sem Klara er búin að búa til síðustu daga um femínista)? Ég er búinn að fá nóg af yfirlætislegu ruglinu í þessari konu.
Hef ég skoðun á Pamelu Anderson? Sáralitla, ef nokkra. Það sem grætti mig var einlægni Veenu. Baráttuandi hennar og barnsleg trú gerir kappræður norræna femínista sem berjast fyrir kynjakvóta og mæla mót staðgöngumæðrun, að eins konar tespjalli sem fara fram í lokuðum vinkonuboðum. Til eru nefnilega konur, sem greiða fyrir með lífi sínu, fyrir það eitt að hafa hugrekki til að vera kvenlegar.
Vá! Hvílíkur harmleikur! Hvílík dramatík! Jafnótrúlega tilburði í textaritun hef ég ekki séð lengi. Klara, það ætti að veita þér verðlaun. Af hverju þarftu að taka það fram að þú hafir ekki neina skoðun á Pamelu Andersson? Hverju viltu eiginlega koma á framfæri? Jú, því að þú haldir að norrænir femínistar rotti sig saman og drekki te í lokuðum vinkonuboðum til þess að flytja kappræður um kynjakvóta og staðgöngumæðrun. Og til þess þurftirðu að draga upp þennan harmleik! Hvaða femínista ertu eiginlega að tala um, Klara? Hvað hafa femínistar gert þér annað en að vera ósammála þér og benda á að þú upphefjir einhæfa staðalímynd, að þú viljir steypa allar konur í sama mót? Væri ekki sniðugra að lækka aðeins niður í hrokanum?

Og svo rúsínan í pylsuendanum. Þessi ótrúlega fallega sýn. Þessi ótrúlega blekking, þessi mantra sem upphefur útlitið og þessi einstöku kvenlegu gildi. Réttlætingin fyrir því að bleiku.is sé haldið gangandi.
Í mínum augum er ekkert til sem heitir neikvæðar, kvenlegar staðalímyndir.

Einungis fordæmingarherferðir sem ýta undir skömm og vanlíðan kvenna, sem búa yfir nægu hugrekki til að elska.
Mýktin, fegurðin, umhyggjan, ástin. Réttur kvenna til að vera kvenlegar er mikilvægastur. Mikilvægari en réttur þeirra til að vera metin að verðleikum til jafns við karla. Ef Klara fengi að ráða myndi kvennabaráttan snúast um þetta. Til allrar hamingju ræður hún ekki miklu um það.

Engin ummæli: