2011-06-16

Páfinn er kona!

Klara rembist eins og rjúpan við staurinn þessa dagana við að réttlæta tilveru bleiks.is. Greinin sem hún skrifaði um daginn er minnistæð. Ekki síst fyrir leiðtogadýrkunina sem kom fram í henni.

Það er mikilvægt fyrir Klöru að koma því á framfæri að konurnar sem skrifa á bleikt.is séu beittar misrétti, að þær „haf[i] átt undir högg að sækja sökum fordóma og legið undir þeim ásökunum að vera andfemínískar“.

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn:
Þegar konur sem vinna við það að viðhalda stöðluðum ímyndum um kynin og útlit kvenna segjast vera femínistar er eitthvað alvarlegt að. Þá fyrst trúi ég ekki einu einasta orði af því sem fylgir.
Klara reynir eftir fremsta megni að auglýsa femínistíska ímynd kvennanna sem skrifa á bleikt.is. Hún getur samt ekki látið það eiga sig að falla í gryfju staðalímyndarinnar af femínistunum sem „ganga í rauðum sokkum og blóta karlmönnum“. Klara vill meina að sú kvenréttindabarátta sem hefur átt sér stað á Íslandi undanfarin ár sé barátta sem nái „einungis til forréttindahópa millistéttarinnar“ en ritstjórn bleiks.is er eins og riddarinn á hvíta hestinum sem dregur fram aðra þjóðfélagshópa sem hafa átt undir högg að sækja.

Klara dregur fram nokkur dæmi um það sem hún telur vera femínístísk umfjöllunarefni á bleiku.is. Hún kallar þetta „borgaralegan femínisma“, femínisma sem vekur athygli á „réttindum þeirra kvenna sem tilheyra minnihlutahópum“.

1. Kynþáttafemínismi: Barátta fyrir réttindum kvenna af ólíkum uppruna

  • Bleikt.is birtir viðtal við konu sem hefur mætt fordómum vegna uppruna síns. Það er mikilvægt að fjalla um réttindi innflytjenda, en þetta er enginn femínismi. Karlar af erlendum uppruna verða líka fyrir fordómum.
2. Lesbískur femínismi: Barátta fyrir auknum réttindum samkynhneigðra kvenna
  • Bleikt.is birtir pistil þar sem höfundur bendir á fordóma gagnkynhneigðra kvenna í garð samkynhneigðra kvenna. Það er mikilvægt að fjalla um réttindi samkynhneigðra, en þetta er enginn femínismi. Hommar verða líka fyrir fordómum.
3. Trans-femínismi: Barátta fyrir réttindum kvenna sem fæddust í karlkyns líkama
  • Bleikt.is birtir viðtal við Völu Grand. Hún verður nú seint talin talskona femínista, en til að bæta það upp birtir bleikt.is viðtal við Uglu Stefaníu sem hefur líka sjálf skrifað pistla fyrir bleikt.is. Þetta er enginn femínismi. Fólk sem hefur látið leiðrétta kyn sitt, fólk af báðum kynjum, verður því miður fyrir fordómum.
Klara skrifar:
Gagnkynhneigðir, „hreinræktaðir“ millistéttarfemínistar taka sjaldan á málefnum þessa kvenna, þrátt fyrir ötula baráttu fyrir bættum kjörum kvenna í sömu stöðu.
Ég veit ekki hvaða hreinræktuðu millistéttarfemísta Klara er að tala um. Ég veit  ekki hvað hreinræktaður millistéttarfemínisti er. Ég veit raunar ekki hvað millistéttarfemínisti er ef því er að skipta. Femínistar eru uppteknir af jafnrétti, en umfram allt jafnrétti kynjanna, og það er hér sem Klara ruglar saman hugtökunum. Jafnrétti og jafnrétti kynjanna eru tvö hugtök. Ekki óskild, en aðskilin.

Þær konur, sem hafa hvað mest gengið fram í þjóðfélaginu í nafni kvenréttinda, hafa barist fyrir bættum launakjörum en vegna félagslegs forskots sem hinar sömu hafa, umfram kynferði sitt, hafa þau femínísku mannréttindamál sem hér eru nefnd, orðið útundan að mestu. Réttindi þeirra þjóðfélagshópa, sem hér er um rætt, transkvenna, útlendinga og lesbía, eru af skornum skammti í velferðarþjóðfélagi sem státar af fáheyrðum réttindum kvenna á alþjóðavettvangi.
Ég veit ekki hvaða femínista Klara er að tala um, en ef hún er að tala um íslenska femínista ætti hún að kynna sér málið aðeins betur því íslenskum femínistum hefur verið mjög annt um málefni þeirra hópa sem Klara nefnir. Íslenskir femínistar hafa verið mjög virkir í baráttu samkynhneigðra, íslenskir femínistar hafa verið mjög virkir í baráttu transgender-fólks, íslenskir femínistar hafa verið mjög virkir í baráttunni fyrir aukinni þolinmæði í garð innflytjenda og sérstaklega kvenna af erlendum uppruna. Íslenskir femínistar hafa unnið ötullega að því að konur af erlendum uppruna fái upplýsingar um réttindi sín. Þegar Klara segist ekki hafa rekist á greinar úr garði harðlínufemínista sem taka mið af því að bæta réttindi þessara þjóðfélagshópa á öðrum miðli en bleikt.is, er það einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki fylgst nógu vel með, eða ekki leitað nógu lengi.

Klara segir að aðrir fjölmiðlar hafi tekið viðtöl við þessar konur bara til þess að „lýsa yfir fordómaleysi“ sínu. Hún áttar sig ekki á því að hún gerir nákvæmlega þetta með pistlinum sínum. Hún réttlætir tilvist miðilsins bleiks.is og notar viðtölin til þess að lýsa yfir fordómaleysi hans í garð kvenna. Eini tilgangur þess að viðtölin við þessar konur birtust á bleikt.is var að lokka að sér lesendur. Það er eðli fjölmiðla, líka bleiks.is.

Raddir þessarra kvenna hafa ekki fengið aukið vægi eftir að vefmiðillinn Bleikt fór í loftið. Boðskapur þeirra, baráttuefni og markmið voru þjóðinni mjög skýr áður en bleikt.is var stofnað. Þessar konur eru, voru og munu alltaf vera fullgildar konur og þær áttu, eiga og munu alltaf eiga sömu réttindi og aðrar konur. Ekki síst í augum femínista.

Umfjallanir bleiks.is eru ekkert sérstaklega háfemínískar. Þær eru tengdar jafnrétti ólíkra hópa. Ekki jafnrétti kynjanna.

Bleikt.is er ekki háfemínískur vefmiðill. Bleikt.is birtir ekki óskir kvenna, þarfir og þrár. Bleikt.is er ekki sniðinn að öðrum konum en þeim sem skrifa á síðuna. Að halda öðru fram er fásinna.

Klara notar orðasambandið þriðja kynslóð borgaralegs frjálslyndisfemínisma. Ég auglýsi eftir skilgreiningu á þessu hugtaki. Ég leyfi mér að efast um að Klara skilji einu sinni hvað þessi orð merkja.

Konurnar sem blóta bleiku.is á vefnum eru engir „róttækir rétttrúnaðarfemínistar“. Konurnar sem blóta bleiku.is á vefnum hafa ekki „misskilið markmið kvennabaráttunnar með öllu“. Konurnar (og karlarnir) sem blóta bleiku.is á vefnum eru ósköp venjulegt fólk. Fólk sem er annt um jafnrétti kynjanna og kærir sig ekki um staðalímyndirnar sem bleikt.is lífnærir sig á.

„Femínismanum“, sem bleikt.is kennir sig við, má aldrei rugla saman við raunverulega baráttu fyrir bættum kjörum kvenna.
Enn er langt í land í óteljandi málefnum kvenna á Íslandi og þó róttækir femínistar sem enn aðhyllast þá stefnu sem önnur kynslóð femínista trúði skýrt á í kringum 1970, er ekki þar með sagt að allir femínistar gangi um í skósíðum pilsum og versli bómullarnærföt í náttúruvöruverslunum.
Þegar ég les svona velti ég því fyrir mér í hvaða heimi manneskjan sem skrifaði lifi. Hvaða tilgangi gegna fordómar af þessu tagi? Og fyrst Klara þykist ekki þekkja neinn róttækan rétttrúnaðarfemínista eða hreinstefnufemínista sem fellur undir þessa skilgreiningu velti ég því fyrir mér hvers vegna hún var að draga þetta upp yfir höfuð. Ég fæ ekki betur séð en að eini tilgangur Klöru sé að ala á fordómum í garð fólks sem er ósammála henni. Enn eina ferðina er staðalímyndinni af femínista haldið á lofti til þess eins að gera femínista tortryggilegri. Ómálefnalegri málflutningur er vandfundinn.

Já, femínistar eru fullgildar manneskjur sem njóta kynlífs, búa yfir kímnigáfu og eiga fullan rétt á eigin lífsskoðunum. Klara þykist ekki hafa haldið öðru fram (þótt hún haldi reyndar öðru fram í pistlinum sínum, hún veit greinilega ekki sjálf hvað hún skrifar). Það að þurfa að blanda kynhneigð eða hversu oft fólk stundar kynlíf inn í kvenréttindabaráttuna eins og Klara gerir sýnir bara að hún sjálf skilur ekki út á hvað kvenréttindabaráttan gengur, þetta kallast projection. Þú varpar eigin hegðun yfir á aðra til að réttlæta hana fyrir sjálfum þér.

Bleikt er ekki afþreyingarmiðill með femínísku ívafi. Það sýna dæmin og sanna. Lesið til dæmis þessar færslur:
Þetta eru bara nokkur dæmi um þá kvenfyrirlitningu sem birtist á bleiku.is og þær staðalímyndir sem bleikt.is reynir af öllum mætti að troða konum og körlum í. Þetta eru bara nokkur dæmi sem hafa birst á síðunni minni. Á vefnum hafa birst fjölmargar umfjallanir um sama efni. Lesið til dæmis þetta.

Eitt stendur upp úr. Bleikt.is er ekki femínistískur fjölmiðill. Ekki frekar en að páfinn sé kona.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður.

Nafnlaus sagði...

Tími til kominn að þessar "Binga kerlingar" fái að heyra það.