2011-06-26

Prinsaskólinn

Anna og útlitið ætlar að kenna stelpum að ganga ekki eins og rækjur. Hún ætlar að kenna þeim að hegða sér almennilega (það væri gaman að fá nánari útskýringar á þessu hjá Önnu, en miðað við það hversu langan tíma það hefur tekið hana að svara fyrirspurnum mínum um prinsaskóla gæti það tekið allt að tvær vikur að fá hana til þess að svara því).

Ég myndi ekki treysta Önnu Gunnarsdóttur til þess að aga dóttur mína fyrir fimmaura. Ég geri ráð fyrir því að það sé flestum foreldrum fært að kenna börnum sínum (strákum og stelpum) að príla ekki á húsgögnum og almennilega borðsiði.

Ég treysti dóttur minni betur en Önnu Gunnarsdóttur að velja hvaða litum hún vill klæðast. Ég kæri mig ekki um að sjálfstraust hennar sé brotið niður þannig að hún þurfi að fara eftir einhverjum fyrirfram ákveðnum reglum (sem Anna hefur sett saman eftir kúnstarinnar reglum, að sjálfsögðu) við klæðaburð.

„[B]örn eiga allt of mikið af fötum“, segir Anna. Hún ætlar að kenna stelpum hve mikið af fötum þær þurfa að eiga (ég býst við að þetta sé þá einhver míní-útgáfa af hinum fullkomna fataskáp drottningarinnar). Ábyrgðin á fatakaupum er þar með færð frá foreldrunum yfir á barnið. Eigum við ekki bara að rétta barninu vísa-kortið og senda það af stað í Kringluna?

Það þarf ekkert að kenna stelpum að raða fötum saman á mismunandi máta. Þær mega bara raða þeim saman eins og þær lystir.

Útlitsdýrkunin er ekki langt undan. Anna ætlar að kenna stelpunum hvernig þær geti látið klippa sig svo þær verði meira aðlaðandi. Hún ætlar að kenna þeim hvernig hálsmál geri þær fallegri. Prinsessunámskeiðið snýst ekkert um það að kenna stelpum hvernig þær eigi að bera sig. Með orðum Sigrúnar Daníelsdóttur, sálfræðings, það kennir ungum stúlkum að vera augnayndi.

Það þarf ekkert prinsessunámskeið til að kenna stelpum að klippa á sér neglurnar. Það þarf heldur ekkert prinsessunámskeið til þess að kenna stelpum að vera beinar í baki. Til hvers þarf að kenna fimm ára börnum að þekkja muninn á prinsessusniði og beinu sniði?


Ef stelpur á aldrinum 5-15 ára þurfa á einhverju námsskeiði að halda, þá er það námsskeið í því að láta drauma sína rætast og öðlast meira sjálfstraust. Þetta tvennt læra þær ekki í prinsessuskólanum.

Og ... Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að kenna öllum þessum strákum sem ganga hoknir um að hætta að ganga eins og rækjur?

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær grein að vanda.
-Þórunn Jakobsdóttir

Nafnlaus sagði...

Fínt hjá þér. Frjáls börn ganga ekki hokin.

Nafnlaus sagði...

Vá, sumir hafa greinilega of mikinn frítíma og of fá áhugamál.

Nafnlaus sagði...

Ég sé heldur ekki þörfina á að framleiða "mini skinkur"

Sigurbjörn sagði...

Nafnlaus 3:

Vá, sumir hafa greinilega of mikinn frítíma og of fá áhugamál fyrst þeir hafa ekki einungis tíma til að lesa það sem ég skrifa heldur líka skrifa athugasemd. Vertu úti, auminginn þinn!

Ásdís sagði...

Fínn pistill, góð athugasemd um göngulag strákanna! Heldurðu að þetta sé hið eina sanna "rækjugöngulag"?

Nafnlaus sagði...

Ég hef alltaf sagt þér Sigurbjörn, að þú ættir að fara að huga að frímerkjasöfnun. En passaðu þig samt að verða ekki hokinn af því að kúra yfir safninu. Aðdáandi.