2011-04-27

Flíspeysan hans Ágústar

Fyrsta fullyrðingin í pistli Ágústar Halldórssonar segir nú eiginlega allt sem segja þarf:
Það er ástæða fyrir því að sumum konum tekst ekki að halda í karlmenn.
Upphafsorðin segja okkur að það eru konurnar sem halda í karlmenninna. Það eru karlmennirnir sem gefast upp og þegar þeir gefast upp þá er það konunni að kenna.

Ég veit ekki hversu gamall Ágúst Halldórsson er, en ef maður á að taka hann trúanlegan er hann á besta aldri, því hann hefur oft „furðað [s]ig á hvernig í ósköpunum vel frambærilegar konur lenda alltaf utan vegar í samböndum“. Ekki nóg með að þær hafi verið flottar þegar þær fóru út að skemmta sér á árum áður, þær báru líka af sér mikinn þokka og, haldið ykkur fast, voru hvers manns hugljúfi. Nú er öldin önnur og er illa farið fyrir þessum konugreyjum sem tekst ekki einu sinni að halda í karlana og eru þar að auki löngu hættar að hugsa um útlitið. Þær ganga um í íþróttabuxum og flíspeysu, með hárið óuppsett eða þá í teygju.

Ég vona að Ágúst Halldórsson tali fyrir hönd sem fæstra karlmanna þegar hann segir „að ungar konur í íþróttabuxum, lítið sem ekkert meikaðar, í flíspeysu sem er rennd upp í háls [séu] ekki mikið fyrir augað“.

Ég vona að Ágústi Halldórssyni hafi ekki verið alvara þegar hann skrifaði að:
Það er eins og sumar konur  geri sér ekki grein fyrir því að fegurðin er það fyrsta sem þær fá frá náttúrunni en hún er einmitt líka það fyrsta hún tekur frá þeim.
Því ég vona að Ágúst Halldórsson sé nógu þroskaður til að hann geti áttað sig á því að fegurðin felst í ansi mörgu öðru en því hvaða fötum fólk klæðist. 

Hugmyndir Ágústar um konur eru í hæsta máta furðulegar og eiga lítið sem ekkert skylt við veruleikann. Ágústi finnst fyndið að sjá konur „sem eru búnar að vera giftar í nokkur ár, alvæg hættar að sjá um sig líkamlega séð (nota það yfirleitt sem afsökun að þær eru búnar að eignast börn) í Cintamani peysunni sinni og  bleiku náttbuxunum sínum en passa sig yfirleitt á því að vera með einhverja töff klippingu og skilja síðan ekkert í því þegar þær komast að því að karlinn er farinn að sækja á önnur mið.“ Ég er kannski eitthvað skrýtinn, en mér finnst þessi lýsing bara óskaplega lítið fyndin. Mér finnst hún aðallega sorgleg. Hún ber vitni um kvenfyrirlitningu og kunnáttuleysi. Og hér kemur svo hápunktur greinar Ágústar (og nú stöndum við öll upp og klöppum saman fyrir honum fyrir að hafa fundið þessa einstaklega raunsönnu myndlíkingu, hún er svo æðisleg að ég tárast næstum því):
Þá er þessi klipping alveg jafn tilgangslaus og róni sem reynir að fegra eigin syndir með því að drekka Carlsberg í gleri og halda að hann sé fínni en hinir rónarnir.
Ágústi finnst það óviðeigandi að giftar eða trúlofaðar konur bæti á sig, klæðist  íþróttagalla og hætti að sjá um sig. Hefur Ágúst kannað eiginmenn þessarra kvenna sem hann hefur svo miklar áhyggjur af?

En fyrst miðillinn er bleikt.is verður náttúrlega eitthvað að koma fram um eðlislægan mun kynjanna og eins og við vitum nú öll (eða ættum allavega að vera búin að fatta, eftir alla eimyrjuna sem ritarar bleikt.is hafa ausið út á netið) eru konur konum verstar. Konur eru villidýr sem láta ekki aftra sér í því að „ná sínu fram, hvort svo sem það sé af hefndarhug, deilum eða einbeittum brotavilja“ (þetta vita allir karlmenn sem hafa lent í því að rökræða við konur, þær vinna alltaf. ALLTAF!) og Ágúst heldur því fram að það sé „ekkert konum eðlislægra en að finna kvenlega veikleika annarra kynsystra sinna og níðast á þeim“. Ég veit ekki hvaða konur Ágúst umgengst en þær eru greinilega skaðræðissköss og geta varla verið margar. Fáar þeirra kvenna sem ég hef átt samskipti við í gegnum tíðina eru þessum einstöku hæfileikum gæddar, og mig grunar að kynjaskiptingin á vinnumarkaðinum og innan veggja heimilisins væri dálítið öðruvísi ef raunveruleikinn væri svona.

En konur, þið skulið ekki örvænta, því Ágúst er svo mikill herramaður að hann gefur ykkur góð ráð svo ykkur takist nú að halda í karlmanninn í lífi ykkar. Þið eigið að
  • [v]era góðar við ykkur
  • dekra  við ykkur
  • vera sætar
  • brosa
  • hlæja
  • njóta lífsins.
Og að lokum:
Flíspeysa er eitthvað sem á bara að sjást úti í sveit
Flíspeysan er undirrót alls ills. Hún „getur verið þröskuldur þess hvort þú lifir hamingjusömu lífi með fjögurra manna fjölskyldu í Garðabænum eða leigir kjallaraíbúð í Breiðholtinu þar sem þú lifir þínu innihaldslausa lífi nema um helgar þegar þú dustar rykið af kynþokkanum og ferð á veiðar innan um sauðdrukkna einstaklinga“. Þar hafið þið það. Ef þið farið í flíspeysu endið þið  sem fyllibyttur í kjallaraíbúð í Breiðholtinu. Og hver vill eiga svoleiðis örlög yfir höfði sér?

Brennið flíspeysuna, setjið á ykkur varalit og hundskist í brjóstahaldarann!


En fyrst og fremst: Haldiði í guðanna bænum kjafti og verið sætar.

2011-04-12

Um þögn og samskipti

Ég veit ekki hvaða menntun Bella hefur, en það mætti halda að hún líti á sig sem sálfræðing miðað við ráðin sem hún gefur fólki. Ég spurði Pjattrófurnar að gamni mínu, en er ekki enn búinn að fá svar.

Ég leyfi mér samt að efast um að sálfræðingar gefi fólki í samskiptaörðugleikum sömu ráð og Bella notar í eigin sambandi og skrifar um í nýjasta pistlinum sínum.

Eins og svo oft áður fannst mér svolítið erfitt að greina megininntakið í pistli Bellu. Hann fjallar um það að allir lendi einhvern tíma í því að vera í sambandi þar sem upp koma vandamál sem okkur finnist óyfirstíganleg. En hann fjallar samt meira um fórnirnar sem konur eiga að færa í samskiptum við karla.
 
Bella heldur því fram að það sé hægt að leysa vandamál með auðveldum hætti. Í stað þess að setjast niður og ræða málin, ræða það af yfirvegun hvað betur megi fara, hvað bæði/báðir/báðar geti gert til þess að sambandið verði betra og að samskiptin batni, er lausn Bellu sú að konan fórni sjálfri sér fyrir ástina sína. Konan ber meginábyrgð á því að samskiptin gangi vel. Ef þau ganga illa, er best að hún þegi bara um vandamálin og láti sem ekkert sé. Leyfðu karlinum bara að hamast eins og naut í flagi, hann fattar það fyrr eða síðar að það hefur engin áhrif.

Þá spyr ég, hver í ósköpunum ætli hafi áhuga á því að vera í svoleiðis sambandi?

Dæmi Bellu er eins og öll dæmin sem hún kemur með, svo öfgafullt að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds af því að lesa það:

Þú og kærastinn eruð ósammála um margt og búin að venja ykkur á samskiptamynstur sem einkennast af rifrildum og særindum yfir öllu og engu. Hvorugt ykkar vill gefa sig og sættast á skoðun hins og þið virðist ætla halda þessum leiðindum og kíting áfram endalaust. Hvað er til ráða?

Sleppið tökunum á vandamálinu!

Ímyndaðu þér að þú setjir vandamálið ofan í poka sem þú hendir í ruslið eða kistu sem hægt er að læsa, það er að segja ef þú treystir þér ekki til að sleppa þessu vandmáli algjörlega og heldur að þú þurfir að ná í það seinna.

Konan á að láta sem „vandamál[ið] sé ekki lengur til“. Hún á að stinga hausnum í sandinn, halda kjafti og vera sæt. Sýna manni sem sýnir henni kannski ekki tilhlýðilega virðingu „ástúð, hlýju, skilning og hvatningu“. Hún á ekki að „gagnrýna hann og kvarta“. Hún á „að sjá það góða í honum og hrósa þegar þú getur“. Hún á að beygja sig fyrir tiktúrunum í honum. Hún á að koma fram við ástina sína eins og hann sé illa uppalinn krakki.

Bella heldur því fram að árangurinn af þessari meðferð eigi ekki eftir að láta bíða eftir sér. Í flestum tilfellum er það samt því miður þannig að fólk breytir ekki hegðunarmynstri sínu nema því sé bent á það að hegðun þess sé óásættanleg. En Bella talar af eigin reynslu, hún er eins og nýástfanginn unglingur og „vandamálið leystist af sjálfu sér“. Hún hlýtur að vera einhver ofurmanneskja því ég held að í mörgum tilfellum sé það þannig að ef fólk ræðir ekki málin og kemst að sameiginlegri niðurstöðu eigi vandamálið eftir að krauma undir niðri og verða enn stærra með tímanum.

Það er alveg áreiðanlega satt að „[m]eð breyttri hegðan og jákvæðara viðmóti fengum við viljann til að leysa vandamálin og komast til móts við hvort annað“. En hitt er annað mál að til þess að breyta hegðun sinni, verður maður að vita hverju á að breyta. Það gerist ekki með því að þaga málin í hel.

Svo held ég að Bella ætti að halda sig frá hugtökum eins og orsök og afleiðing. Það er mjög augljóst að hún áttar sig ekki á merkingu þeirra.

2011-04-01

Nauðungarhjónaband

Fyrir nokkru gaf Jafnréttisstofa út bækling sem ber nafnið Réttur þinn.
[Bæklingurinn] er gefinn út á íslensku, ensku, pólsku, spænsku, thaílensku, rússnesku og arabísku. Í honum má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi íslenskt samfélag og réttarkerfi. Upplýsingar um jafnrétti kynjanna, dvalarleyfi, hjónabönd, skilnað, forsjármál, umgengnismál, fjármál, ofbeldi í nánum samböndum og hótanir. Þar má einnig finna vísanir í frekari upplýsingar um aðstoð, svo sem símanúmer, heimilisföng og heimasíður ýmissa stofnanna og félagasamtaka.
Einhver benti á að aðgengi erlendra kvenna að bæklingnum væri takmarkaður, þar sem þeim væri í mörgum tilfellum meinað að fara út úr húsi. Það er eflaust eitthvað til í því, en ég efast um að það eigi við í því tilviki sem ég ætla að tjá mig um hér.

Samkvæmt 4. lið 28. greinar V. kafla Hjúskaparlaga getur annað hjóna krafist ógildingar hjúskapar síns ef það hefur verið neytt til vígslunnar.

Priyönku Thapa hefur verið synjað um landvistarleyfi á Íslandi þrátt fyrir það að hún eigi það á hættu að vera neydd í hjónaband snúi hún til heimalands síns, Nepals.

Útlendingastofnun setur hefðir heimalands hennar ofar íslenskum og virðist telja að það sé allt í lagi að neyða konur í hjónaband.

Nýlega sagði sænska dagblaðið Dagens Nyheter frá því að sænska stofnunin sem fer með svipað hlutverk og Útlendingastofun (Migrationsverket) mælti með hertum lögum gegn nauðungarhjónaböndum og hjónaböndum barna.

Í ritgerð til embættisprófs í lögfræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð skrifar Sara Willhager m.a. (lausleg þýðing mín fyrir neðan)
I flera internationella instrument fastställs att det är en mänsklig rättighet att själv få bestämma över äktenskapets ingående och att äktenskap därför endast får ingås med båda parters fria och fulla samtycke [...] Skyddet mot barn- och tvångsäktenskap utgörs idag också av att utländska barn- och tvångsäktenskap som huvudregel inte erkänns och att hindersprövning alltid ska se enligt svensk lag vid ingående av äktenskap inför svensk myndighet vilket innebär att 18 årsgränsen gäller föra alla oberoende av medborgarskap [...] Tidigare visades relativt stor hänsyn till främmande kulturers syn på äktenskapet och dess ingående men idag har lagstiftaren tydligt markerat att de enskildas mänskliga rättigheter kommer främst. 
Það er fest í fleiri alþjóðlega samninga að það eru mannréttindi að fá að ráða sjálf(ur) yfir því hvort maður gangi í hjónaband og að til hjónabands sé því einungis hægt að stofna með fríu og frjálsu samþykki beggja aðila [...] Vörnin gegn barna- og nauðungarhjónabandi felst nú á dögum líka í því að útlensk barna- og nauðungarhjónabönd eru að jafnaði ekki samþykkt og að könnunarvottorð skuli gefið út samkvæmt sænskum lögum við stofnun hjónabands fyrir sænskum yfirvöldum sem þýðir að 18-ára aldurstakmarkið gildir fyrir alla óháð ríkisfangi [...] Áður fyrr sýndu yfirvöld mikla tillitsemi til sýnar framandi menningarheima á hjónabandið og það að ganga í hjónaband en nú hefur löggjafarvaldið sýnt það greinilega að mannréttindi einstaklingsins eru í fyrirrúmi.

Það er sem sagt stór munur á því hvaða augum íslensk stjórnvöld og sænsk líta nauðungarhjónaband. Þess vegna sendi ég tölvuskeyti til Útlendingastofnunar, með afriti til innanríkisráðherra, forsætisráðherra, Forseta Íslands, Umboðsmanns Alþingis, forseta Alþingis, forseta allsherjarnefndar, Jafnréttisstofu og Amnesty International á Íslandi þar sem ég bið um greinargerð á því hvaða skilyrði fólk þurfi að uppfylla til að fá landvistarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum og hvort Útlendingastofnun líti á nauðungarhjónaband sem mannúðlega aðferð við að stofna hjónaband og ef það sé raunin, hver ástæðan sé fyrir ólíkum sjónarmiðum íslenskra og sænskra stjórnvalda.