2010-12-01

Alfakarlar Hlínar

Hlín Einars þykist hafa doktorsgráðu í lífsreynslu.

Það er nú gott og blessað Hlín að þú hefur svona mikið sjálfsálit. Ég hef samt áhyggjur af því hverskonar karlmenn þú umgengst. Eða nei annars, mér er skítsama hvaða karlmenn þú þekkir!

En mér er ekki sama um klisjufangelsin sem þú treður mér í.

Þegar ég les pistlana þína finn ég ekki fyrir því að þú sért mjög lífsreynd. Þú gætir þess vegna verið nýbúin í samræmdu prófunum því margt af því sem þú skrifar um á betur heima í lífi táningsstelpu en fullorðinnar manneskju. Í haust hefur þú birt hina ýmsu pistla um karlmenn og samskipti kynjanna sem gefa ekki bara falska mynd af karlmönnum, karlmenn eru hálfvitar sem hafa ekki áhuga á neinu öðru en kynlífi og þeir eru tilbúnir til þess að fórna öllu bara þeir fái að riðlast á þér stundarkorn, heldur á kvenímyndin sem þú dásamar svo ótrúlega mikið meira sameiginlegt með persónu úr Rauðu ástarsögunum en þeim femínista sem þú þykist vera.

Pistlarnir eru margir, svo margir að maður verður máttlaus af tilhugsuninni einni saman. Frá því um miðjan október hafa birst að minnsta kosti átta pistlar sem hafa fengið hárin til að rísa á bringu mér (þeir eru fleiri, en ég treysti mér ekki til að lesa þá, mér verður svo óglatt).
 
1. Um alfa- og betakalla
2. 15 hlutir sem karlmenn þola ekki við konur
3. Leyndarmál karlmanna
4. Bólfimi karla: Við hvað vinnur maðurinn þinn?
5. 7 náungar sem ber að varast
6. Hlutir sem má aldrei, aldrei, ALDREI segja í rúminu
7. Aldrei minnast á þetta við kærastann/kærustuna
8.  Orðabók íslenska karlmannsins

Á næstu dögum ætla ég að fara í gegn um hvern og einn af þessum átta pistlum. Ég ætla að byrja á þessum um alfa- og betakarlana. Hann er nefnilega svo stórkostlega vel skrifaður að það ætti að tilnefna þig til Bókmenntaverðlauna Langtburtistan fyrir hann.1. Um alfa- og betakalla

Þú þykist vera búin að greina karlmenn í tvo hópa. Alfakarlar eru karlar sem kunna ákveðin karlmennskubrögð, betakarlar eru aumingjar sem geta ekki svarað fyrir sig og láta konuna sína ráðskast með sig. Þú segir karlmennsku vera á undanhaldi. Það sorglega er að þú virðist ekki átta þig á því að karlmennska snýst um eitthvað allt annað en það sem þú heldur að hún snúist um. Þú vilt að karlmaðurinn sjái um ákveðna hluti, en við fáum samt aldrei að vita hvaða hluti, aðra en að karlmenn eigi að hafa frumkvæði í samskiptum við hitt kynið ... meira hlutverkið það, maður!

Þú tönnlast á að það séu „ákveðin atriði sem ég tel að „eigi“ að vera á einhvern tiltekinn hátt.“ Þú telur að „ákveðnir eðlisþættir séu innbyggðir í karlkynið og kvenkynið, og þeir hafi ruglast með baráttu konunnar fyrir auknum réttindum.“ Og hvað er það sem hefur ruglast? Jú. Karlinn er ekki lengur „veiðimaðurinn“ og konan er ekki lengur „bráðin“ eitthvað sem á að hafa verið „innbyggt í okkur, erfðafræðilega, og sama hversu sterkar við konur verðum og sama hvað allri kvennabaráttu líður, þá er þetta svona frá náttúrunnar hendi. Sorrý - við getum ekki breytt því.“

Karlmenn hafa með öðrum orðum ruglast svo rosalega í rýminu að þeir eru búnir að týna karlmennskunni í sjálfum sér.  Takk fyrir og góða nótt! Heyrirðu ekki vitleysuna í sjálfri þér?

Aukið jafnrétti kynjanna hefur fokkað upp (afsakið orðalagið) ákveðnum eðlisþáttum sem þú telur innbygða í karlkynið. Áttu við að það sé mér minna eðlislægt að elda mat ofan í börnin mín, þrífa heimilið, strauja þvottinn, koma börnunum í háttinn, sækja þau í skólann en það að kaupa bensín á bílinn, fara með bílinn í skoðun, horfa á sjónvarpið meðan konan mín setur í þvottavélina eða eldar matinn? Er ég minni karlmaður af því að ég sé um það að elda matinn heima 300 daga ársins? Er ég minni karlmaður af því að ég er heima með börnunum mínum þegar þau eru veik? Er ég minni karlmaður af því að mér finnst það bara allt í lagi að konan mín sé með hærri laun en ég? Ég get líka upplýst þig um það að það var konan mín sem flekaði mig og mér finnst ég bara ekkert minni karlmaður fyrir vikið.

Svo kemur uppáhaldskaflinn minn í pistlinum:
Ef konan tekur þetta að sér og sér alfarið um það, er hætt við að karlinn leggist með fæturna upp í loft og slappi af. Auðveldur leikur fyrir hann og ekkert challenge. Ef konurnar láta karlana sjá um þennan þátt er áhuginn alveg á hreinu. Ef karlinn hefur áhuga þá mun hann hafa samband. Ef konan sér um þetta er hætt við að hann glati virðingunni fyrir henni. Plús það, ef konan ræður yfir karlinum eða öllu í sambandinu glatar hún líka virðingun[ni (leiðrétting mín)] fyrir honum
Hvaða karlmenn talaðir þú eiginlega við til að komast að þessu? Hvaða jafnrétti aðhyllist þú eiginlega? Samskipti hverra byggjast á svona reglum? Persónulega myndi ég ekki vilja vera í sambandi þar sem konan tæki aldrei frumkvæði og ég efast um að nokkur heilbrigð kona vilji vera í sambandi við mann sem hún megi ekki eiga frumkvæði að samskiptum við. Í þínum heimi er konan passív, í aukahlutverki og karlinn aktívur, í aðalhlutverki.

Þér finnst fátt „kynþokkafyllra eða meira heillandi en sjálfsöruggir menn“. Þá get ég sagt þér að mér finnst fátt kynþokkafyllra og meira heillandi en sjálfsöruggar konur!

Þú segir að konur „fíl[i] þetta sjálfsöryggi“ að „það veit[i] þeim öryggiskennd“ Sjálfsöryggi karla leyfir konum að vera „kvenlegar og finna fyrir kynverunni í sér. Þegar karlmann skortir sjálfsöryggi fer konan í það ástand að „passa hann“ og klappa honum á kinnina og segja honum að þetta verði nú allt í lagi. Svolítill mömmufílingur...og það er ekkert sexý við það.“

Skilurðu sjálf það sem þú skrifar? Gerirðu þér grein fyrir kvenfyrirlitningunni í eigin orðum? Konur eru ekki kvenlegar og finna ekki fyrir kynverunni í sér nema þær hafi sterkan og sjálfsöruggan karlmann sér við hlið. Þú ert svo mótsagnakennd að það hálfa væri yfirdrifið.

Þú ert eflaust sterk og sjálfstæð. Þú getur örugglega gert allt sjálf, staðið í þrasi í bankanum, svarað dónalegu fólki, reddað stífluðu klósetti eða skipt um dekk. Gott fyrir þig. Mér gæti ekki verið meira sama.

11 ummæli:

Unknown sagði...

Vá hvað ég vona að hún lesi þetta hjá þér! Frábær pistill.

Nafnlaus sagði...

Flott hjá þér.

Helga sagði...

Meira svona! :D

Andrea sagði...

Mjög góðar athugasemdir hjá þér.

Mig langar líka, án þess að vera eitthvað að ráðast á Hlín Einars eða pjattrófurnar persónulega, að benda á að þær eru allar skráðar einhleypar í þjóðskrá.
Ég finn reyndar ekkert um Guðrúnu Gunnarsdóttur (gigi) þar sem þær eru margar í þjóðskránni (en samt bara tvær í símaskránni sem eru viðskiptafræðingar, önnur þeirra er gift, hin er með rangt skráð lögheimili svo ég finn ekkert um hana).

En það að þær skuli allar vera einhleypar, segir manni meira um hversu vel þetta álit þeirra á karlmönnum virkar í raunveruleikanum.
(reyndar gæti svo sem verið að þær séu allar að svíkja undan skatti, en ekki ætla ég að saka þær um þann glæp.)

Bella sagði...

Frábær pistill hjá þér :)

Unknown sagði...

Kominn tími til, veit að margir hafa hugsað þetta en loksins nennti einhver að standa í þessu.
Skemmtilegt líka að eins og er þá ertu búinn að fá fleiri hrós frá kvenmönnum en frá karlmönnum fyrir þetta, það er greinilega ekki nógu mikið af feministum á landinu smbr Margréti Hugrúnu

Sæsi sagði...

Fín lesning hjá þér vinur, en ein leiðrétting hér á pistlinum hvað varðar "15 hlutir sem karlmenn þola ekki við konur", þá var það ekki pistill sem Hlín skrifaði.

Sá pistill var ekki einu sinni skrifaður til að enda í hennar pistlahorni, heldur sem glettið svar frá karlmanni við pistlinum "10 hlutir sem konur þola ekki við karlmenn" sem Hlín skrifaði! :)

Elin sagði...

Frááááááááábært að lesa þetta!!!!!! Áfram áfram!

Nafnlaus sagði...

High five!

Lára

Ragnar Heiðar Þrastarson sagði...

Vel gert Sigurbjörn.

Kristján sagði...

Margir góðir punktar hjá þér - við karlmenn erum flóknar verur og ekki auðvelt að troða okkur í eitt form og búa til góða köku til að hafa heima og mumsa á.

Þessu tengt ! Bravó fyrir Andreu og hennar innleggi hér að ofan ! Akkúrat - ef að pjattrófurnar hefðu rétt fyrir sér væru þessar dömur ekki að blogga heldur að "njóta kökunnar" ;)