2011-02-27

Rósa Björk elskar karlmenn

Er það ekki alveg með ólíkindum að vefur sem kallar sig vef fyrir drottningar skuli innihalda jafnmikið kvenfjandsamlegt efni og bleikt.is? 

Nýjasta dæmið er pistill Rósu Bjarkar um það af hverju hún elskar karlmenn. Í upphafi dettur manni helst í hug að Rósa Björk sé að skrifa einhvern óskalista. Óskalista yfir það hvað hún vill fá í afmælisgjöf. Hún heldur að hún sé að lýsa sjálfri sér, en í raun og veru er hún ekki að gera neitt annað en að lýsa því sem hún vill helst vera en getur aldrei orðið. Niðurstaðan er sorglegri en orð fá lýst.

Rósu Björk dreymir um að verða lesbía, henni gengur svo illa að lokka til sín karlmenn. Það er líka „miklu auðveldara að vera með konu“. En hún myndi ekki sætta sig við hvað sem er, kærastan yrði að vera svipuð í vextinum og geta lánað henni fötin sín og sminkið sitt. Það er greinilegt hvað „samband“ gengur út á fyrir Rósu Björk. Það sem er svo frábært við lesbíur er að ef þær hafa ekki sömu áhugamál geta þær þá allavega málað sig saman og mátað föt fyrir hvor aðra og farið saman á klósettið. Hei! Kúkum í kross!

En það fylgir böggull skammrifi eins og svo oft áður. Konur tuða og konur þola ekki, eins og við vitum öll ... eða var það ekki?, að heyra aðra konu tuða, hvað þá að láta aðra konu skipa sér fyrir verkum. Hver vill hanga með einhverja gjammandi gelgju utan á sér?

Hvernig í andskotanum Rósu Björk tekst að komast að þeirri niðurstöðu sem hún kemst að út frá þessum lýsingum er mér gjörsamlega ómögulegt að skilja. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að vegna þess að konur tuði og gjammi, þá elski hún karlmenn og gæti ekki verið í sambandi með konu.

Það er ekki eins og þessar lýsingar og frumlega niðurstaða hafi verið nóg. Rósa Björk þarf nefnilega að sannfæra okkur um að hún hneigist raunverulega heldur til karla en kvenna. Það liggur við að maður sé fullur eftirvæntingar, eftir þessar ótrúlegu lýsingar á kvenfólki, iðar maður allur í skinninu að fá að vita hvað það sé í fari karlmanna sem er svona æðislegt. Svekkelsið er jafnmikið og eftirvæntingin ... Ég nenni ekki að fara yfir öll atriðin, þau eru sum hver svo hallærisleg að þau eru ekki svara verð.

Jú, „[k]arlmenn eru yndislegar verur“. Það er svo æðislegt þegar þeir opna sig og sýna tilfinningar. Þeir mega samt ekki sýna meira en bara hæfilega mikið af tilfinningum. Hér kemur fram gamla alfa- og betakarlastaðalímynd Hlínar Einars. Karlar mega opna sig upp að vissu marki, en það er eins gott fyrir þá að vera ekkert að opna sig allt of mikið, því annars eru þeir aumingjar.

Karlmenn eru svo sterkir. Þeir geta allt og það er svo gott að geta leitað til þeirra þegar konur geta ekki opnað sultukrukkur eða kókflöskur. Svo er náttúrlega nauðsynlegt að hafa karlmann til þess að bora og gera við hluti. Maður veltir því fyrir sér hvort karlinn geti ekki gert neitt annað heima en að bora í vegg og opna sultukrukkur. Hvað á hann að gera þess á milli? Lyfta lóðum eða hanga í tölvunni?

Karlar kunna betur að keyra bíl en konur. Punktur. Það þarf „ekkert að rökræða það neitt“. Þetta kalla ég Pjattrófusyndrómið. Það að yfirfæra eigin skoðanir og hæfileika yfir á allar konur. Rósa Björk er kannski ekkert sérstaklega góður ökumaður og á það til að villast. Hún réttlætir það fyrir sjálfri sér með því að telja sjálfri sér í trú um að svona illa sé farið fyrir öllum konum. Þá get ég ekki annað, Rósa Björk, en bent þér á að allar, eða áreiðanlega allflestar, rannsóknir sem hafa verið gerðar á umferðaröryggi benda til þess konur séu betri ökumenn en karlar. Ég ætla leyfa mér að stinga upp á því við þig að áður en þú skrifar jafnáberandi vitleysu næst að þú hringir í eitthvert tryggingafélaganna og spyrjist fyrir um það hvort fleiri konur eða karlar valdi umferðarslysum og hvort fleiri konur eða karlar deyi í umferðinni.

Það er auðveldara að eiga við karla, þeir eru svo úrræðagóðir. Við karlar getum dregið ykkur „kve[n]fólkið niður á jörðina“ þegar þið miklið „óvart“ fyrir ykkur vandamálin. Hvað þýðir þetta: Jú, þegar konur hafa áhyggjur, er það óvart, og þá er gott að hafa karlmann sér við hlið sem getur útskýrt þetta fyrir konunni. Þetta kallast að gera lítið úr tilfinningum, og er yfirleitt álitið vera gróft andlegt ofbeldi.

Svo eru karlar svo duglegir að sjá fyrir fjölskyldunni. Þeir eru svo vinnusamir og duglegir og eiga ekkert annað en hrós skilið fyrir það hversu mikið þeir þræla sér út. OK, nú vitum við hvers vegna karlar þurfa ekki að taka að sér önnur heimilisverk en að bora í vegg og opna sultukrukkur. Þeir eru í vinnunni. En ... Bíddu nú hæg! Lifir þú á fimmta eða sjötta áratugnum? Eru þeir karlar sem sjást varla heima hjá sér betri karlmenn en þeir sem vinna átta tíma vinnudag og sjá þar að auki um heimili og börn til jafns við eiginkonu sína? Er sá karl sem kemur heim og leggst með tærnar upp í loft og bíður eftir kvöldmatnum betri maður en sá karl sem tekur að sér að elda mat og setja í uppþvottavélina þegar hann kemur heim úr vinnunni? Raunveruleiki þinn er svo fjarri raunveruleika þess sem má kalla „venjulegt fólk“ að þú hefur gjörsamlega fyrirgert rétti þínum til að hafa skoðanir á svona hlutum. Það sem þú skrifar er ekki bara sorglegt, subbulegt og særandi. Það jaðrar við forheimsku.

Konur finna fyrir svo miklu öryggi í návist karlmanna. Það held ég að ég geti sveiað mér upp á að lesbíur finni fyrir öryggi hvor hjá annarri. Það held ég að ég geti sveiað mér upp á að tveir karlar geti fundið fyrir öryggi í návist hvors annars án þess að það þurfi að vera eitthvað kynferðislegt. Staðhæfingin að konur þurfi karlmann sér við hlið til að vera öruggar hefur þegar verið dæmd ómerk.

Karlmenn eru þolinmóðir, þeir meina það sem þeir segja og þeir lykta vel. Allt eru þetta einstaklega jákvæðir eiginleikar, en ég velti því fyrir mér hvað sé sérstaklega karlmannlegt við þá. Það þætti varla saga til næsta bæjar þótt kona væri þolinmóð. Ætli myndi ekki hrikta í mörgum stoðum ef konur meintu ekki það sem þær segja? Flestar konur sem ég þekki lykta ekkert sérstaklega illa.

Besti eiginleiki karla er samt öryggistilfinningin sem þeir veita konum. Það skiptir engu máli hversu óöruggir þeir eru sjálfir, þeir hafa lag á því að blekkja konur svo þær haldi að allt sé í lagi. Ég er ekki viss um að Rósa Björk átti sig á því hvað hún skrifar. Samkvæmt henni er einn besti eiginleiki karla sá hversu undirförulir þeir eru. Það er virkilega eiginleiki sem er eftirsóknarverður eða hitt þó heldur.

Rósa Björk elskar alltsvo karla vegna þess að þeir eru svo lævísir og vegna þess að þeir kunna að vefja henni um fingur sér. Ég held að pistill Rósu Bjarkar segi meira um þá karlmenn sem hún umgengst en um karlmenn í heild sinni. Ég held að Rósa Björk ætti að líta sér nær áður en hún heldur áfram að yfirfæra eigin reynslu og skoðanir yfir á aðra. Ég held að hún ætti að leggja staðalímyndir sínar á hilluna og snúa sér að einhverju öðru en því að skrifa pistla á Netið.

1 ummæli:

BGG sagði...

Góður pistill, takk fyrir!