2011-03-08

Guðný er brjáluð!

Guðný er rosalega reið. Hún er alveg brjáluð bara.

Guðný skilur nefnilega „ekki fólk sem hefur sig í að hafa skoðanir á öllu“.

Fólk sem hefur skoðanir er „bandbrjálað“, eins og Guðný, nema munurinn er að Guðný nennir ekki að hafa skoðanir á neinu, ekki einu sinni Icesave. Samt hefur hún skoðanir á öllu. Hún er orðin svo þreytt á femínistunum og krossferð þeirra gegn blaðurbloggunum að hún vill helst af öllu bara leggja sig. Hún getur ekki ímyndað sér annað en að það krefjist mikillar orku og tíma að hafa aðrar skoðanir en hún. Það þarf reyndar ekki að hafa aðrar skoðanir en hún, það er nóg að hafa skoðanir, og Guðný missir allan mátt. Guðný, fáðu þér lýsi og þú hressist vonandi aðeins.

Jæja, svo eigum við að vorkenna Guðnýju aðeins. Ekki nóg með að helvítis femínistarnir séu á hælunum á henni eins og híenur,  það er svo óskaplega mikið að gera hjá henni við að skrifa pistla fyrir drottningarnar að hún hefur ekki fengið að sjá systurdóttur sína í tvær vikur! Hvernig fer Guðný að þegar hún eignast börn sjálf? Nei, annars ... hún ætlar ekki að eignast börn. Hún hefur ekki tíma til þess. Guðný ætlar að ættleiða.

Á meðan stjórnmálamennirnir leysa Icesave (þótt Guðnýju finnist þeir kannski ekkert standa sig neitt rosalega vel) og femínistarnir (sem Guðnýju finnst að mættu kannski fussa og sveia aðeins minna) berjast fyrir réttindum hennar, vill Guðný nota frítímann í eitthvað uppbyggilegra en gagnrýni. Hún vill skemmta sér. Hún vill eiga kökuna og éta hana líka.

Guðný, ég hlæ.

1 ummæli: