2011-04-27

Flíspeysan hans Ágústar

Fyrsta fullyrðingin í pistli Ágústar Halldórssonar segir nú eiginlega allt sem segja þarf:
Það er ástæða fyrir því að sumum konum tekst ekki að halda í karlmenn.
Upphafsorðin segja okkur að það eru konurnar sem halda í karlmenninna. Það eru karlmennirnir sem gefast upp og þegar þeir gefast upp þá er það konunni að kenna.

Ég veit ekki hversu gamall Ágúst Halldórsson er, en ef maður á að taka hann trúanlegan er hann á besta aldri, því hann hefur oft „furðað [s]ig á hvernig í ósköpunum vel frambærilegar konur lenda alltaf utan vegar í samböndum“. Ekki nóg með að þær hafi verið flottar þegar þær fóru út að skemmta sér á árum áður, þær báru líka af sér mikinn þokka og, haldið ykkur fast, voru hvers manns hugljúfi. Nú er öldin önnur og er illa farið fyrir þessum konugreyjum sem tekst ekki einu sinni að halda í karlana og eru þar að auki löngu hættar að hugsa um útlitið. Þær ganga um í íþróttabuxum og flíspeysu, með hárið óuppsett eða þá í teygju.

Ég vona að Ágúst Halldórsson tali fyrir hönd sem fæstra karlmanna þegar hann segir „að ungar konur í íþróttabuxum, lítið sem ekkert meikaðar, í flíspeysu sem er rennd upp í háls [séu] ekki mikið fyrir augað“.

Ég vona að Ágústi Halldórssyni hafi ekki verið alvara þegar hann skrifaði að:
Það er eins og sumar konur  geri sér ekki grein fyrir því að fegurðin er það fyrsta sem þær fá frá náttúrunni en hún er einmitt líka það fyrsta hún tekur frá þeim.
Því ég vona að Ágúst Halldórsson sé nógu þroskaður til að hann geti áttað sig á því að fegurðin felst í ansi mörgu öðru en því hvaða fötum fólk klæðist. 

Hugmyndir Ágústar um konur eru í hæsta máta furðulegar og eiga lítið sem ekkert skylt við veruleikann. Ágústi finnst fyndið að sjá konur „sem eru búnar að vera giftar í nokkur ár, alvæg hættar að sjá um sig líkamlega séð (nota það yfirleitt sem afsökun að þær eru búnar að eignast börn) í Cintamani peysunni sinni og  bleiku náttbuxunum sínum en passa sig yfirleitt á því að vera með einhverja töff klippingu og skilja síðan ekkert í því þegar þær komast að því að karlinn er farinn að sækja á önnur mið.“ Ég er kannski eitthvað skrýtinn, en mér finnst þessi lýsing bara óskaplega lítið fyndin. Mér finnst hún aðallega sorgleg. Hún ber vitni um kvenfyrirlitningu og kunnáttuleysi. Og hér kemur svo hápunktur greinar Ágústar (og nú stöndum við öll upp og klöppum saman fyrir honum fyrir að hafa fundið þessa einstaklega raunsönnu myndlíkingu, hún er svo æðisleg að ég tárast næstum því):
Þá er þessi klipping alveg jafn tilgangslaus og róni sem reynir að fegra eigin syndir með því að drekka Carlsberg í gleri og halda að hann sé fínni en hinir rónarnir.
Ágústi finnst það óviðeigandi að giftar eða trúlofaðar konur bæti á sig, klæðist  íþróttagalla og hætti að sjá um sig. Hefur Ágúst kannað eiginmenn þessarra kvenna sem hann hefur svo miklar áhyggjur af?

En fyrst miðillinn er bleikt.is verður náttúrlega eitthvað að koma fram um eðlislægan mun kynjanna og eins og við vitum nú öll (eða ættum allavega að vera búin að fatta, eftir alla eimyrjuna sem ritarar bleikt.is hafa ausið út á netið) eru konur konum verstar. Konur eru villidýr sem láta ekki aftra sér í því að „ná sínu fram, hvort svo sem það sé af hefndarhug, deilum eða einbeittum brotavilja“ (þetta vita allir karlmenn sem hafa lent í því að rökræða við konur, þær vinna alltaf. ALLTAF!) og Ágúst heldur því fram að það sé „ekkert konum eðlislægra en að finna kvenlega veikleika annarra kynsystra sinna og níðast á þeim“. Ég veit ekki hvaða konur Ágúst umgengst en þær eru greinilega skaðræðissköss og geta varla verið margar. Fáar þeirra kvenna sem ég hef átt samskipti við í gegnum tíðina eru þessum einstöku hæfileikum gæddar, og mig grunar að kynjaskiptingin á vinnumarkaðinum og innan veggja heimilisins væri dálítið öðruvísi ef raunveruleikinn væri svona.

En konur, þið skulið ekki örvænta, því Ágúst er svo mikill herramaður að hann gefur ykkur góð ráð svo ykkur takist nú að halda í karlmanninn í lífi ykkar. Þið eigið að
  • [v]era góðar við ykkur
  • dekra  við ykkur
  • vera sætar
  • brosa
  • hlæja
  • njóta lífsins.
Og að lokum:
Flíspeysa er eitthvað sem á bara að sjást úti í sveit
Flíspeysan er undirrót alls ills. Hún „getur verið þröskuldur þess hvort þú lifir hamingjusömu lífi með fjögurra manna fjölskyldu í Garðabænum eða leigir kjallaraíbúð í Breiðholtinu þar sem þú lifir þínu innihaldslausa lífi nema um helgar þegar þú dustar rykið af kynþokkanum og ferð á veiðar innan um sauðdrukkna einstaklinga“. Þar hafið þið það. Ef þið farið í flíspeysu endið þið  sem fyllibyttur í kjallaraíbúð í Breiðholtinu. Og hver vill eiga svoleiðis örlög yfir höfði sér?

Brennið flíspeysuna, setjið á ykkur varalit og hundskist í brjóstahaldarann!


En fyrst og fremst: Haldiði í guðanna bænum kjafti og verið sætar.

2 ummæli:

Regin sagði...

Flott gagnrýni.

Nafnlaus sagði...

Eins og talað út úr mínu hjarta. Aðra eins vitleysu og viðbjóð hef ég varla lesið eins og þessa "grein" hjá Ágústi...

Takk fyrir góða gagnrýni, Elva