Ég held að það sé margt til í því sem kunningjakona mín skrifaði mér (og öðrum sem höfum verið viðriðin Kilju-bréfið). Hún skrifaði:
Alltaf skal einhver velviljuð kona koma körlunum til varnar.
Júlía Margrét Alexandersdóttir, sem er áreiðanlega mjög velviljuð, skrifar grein í Frétttablaðið í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug eftir að hafa lesið greinina var: „Aumingja Egill að þurfa að lenda í þessu einelti ...“.
Það er ýmislegt athugavert við það sem Júlía Margrét skrifar:
1. „Það má deila á þessa aðferðafræði þótt ég efi ekki niðurstöður“
Þetta hafa margir sagt síðan greinin okkar birtist í Fréttatímanum, en enginn hefur getað sagt okkur það nákvæmlega hvað er að aðferðafræðinni. Ef þáttafærslurnar gefa ekki rétta mynd af því hvað gerist í þáttunum, þætti mér réttara að gagnrýna Egil Helgason fyrir að vera jafnkarllægur í þáttafærslunum sínum og raun ber vitni. Það er ekkert að aðferðafræðinni.
2. „Góður þáttur Sigríðar Pétursdóttur, Kvika, er í eftirlæti undirritaðrar. Kvikmyndasagan er hins vegar sama marki brennd og bókmenntafortíðin; karlmenn eru þar í aðalhlutverki og þrátt fyrir mjög góða þátttöku kvenna í setti Sigríðar eru karlmenn þar eflaust í meirihluta séu viðfangsefnin dregin með í sama pott með sama hætti.“
Er þetta ekki alveg týpískt? Alltaf þegar karlmenn eru gagnrýndir þarf að draga fram einhverja konu og benda á að hún hegði sér nú fjandakornið alveg eins! Þessi samlíking er ekki einungis fáránleg; hún er kolröng. Frá áramótum hefur Sigríður rætt við átta konur og tíu karla. Hlutföllin eru sem sagt 45/55. Ég myndi telja það öllu jafnara kynjahlutfall en 23/77. Sigríður tekur þar að auki meðvitaðar ákvarðanir til að jafna hlut kynjanna í þáttum sínum. Það verður seint hægt að segja það um Egil Helgason.
3. „Fljótlegast í þessu öllu, er að líta hvorki til hægri né vinstri og beina spjótum að þáttastjórnandanum. Ég held þetta sé hins vegar kjörið tækifæri til að staldra við og velta við margfalt fleiri steinum. Í hvaða röð viljum við breyta þessu - eigum við að byrja á egginu eða hænunni. Ef Egill er bakarinn eru bókaútgefendur smiðirnir, sem stjórna því hvað kemur út.“
Við litum alltsvo hvorki til hægri né vinstri, beindum spjótunum að þáttastjórnandanum, hengdum bakara fyrir smið, veltum vitlausum steinum og byrjuðum á egginu (fyrirgefið háðsglósuna, ég stenst bara ekki mátið ... ef ég hefði bara haft 390 orð, þá hefði ég kannski látið eina myndlíkingu duga). Aumingja Egill ... Hann er bara að endurspegla raunveruleikann í þáttunum sínum. Hversu lengi ætlum við að leyfa körlum að nota þessa afsökun til þess að sporna við auknum réttindum kvenna? Þetta er rangt og ég er viss um að ef Júlía Margrét veltir því aðeins betur fyrir sér kemst hún að sömu niðurstöðu og við. Bókmenntaþátturinn Kiljan endurspeglar ekki raunveruleika íslensks bókmenntalífs. Hann endurspeglar karlkynshluta íslensks bókmenntalífs. Það er hins vegar alveg rétt að það má velta fleiri steinum. Okkur fannst bara brýnt að byrja þar sem kynjamismununin var sem augljósust. Það ætti líka að vera deginum ljósara að það er þáttastjórnandinn sem ákveður hverjir mæta í þáttinn hans og það er þáttastjórnandinn sem getur tekið meðvitaða ákvörðun um að gera báðum kynjum jafnhátt undir höfði þótt þeim sé kannski ekki gert það annars staðar í þjóðfélaginu. Það kallast að sýna gott fordæmi.