2011-03-24

Tölfræðin er sérkennileg

Ég ætla ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í þessu máli en mér finnst það sérkennilegt að fólk haldi því sinkt og heilagt fram að tölfræðin á bak við greinina í Fréttatímanum sé sérkennileg. Eina tilraunin sem ég hef séð til þess að færa rök fyrir því að tölfræðin sé sérkennileg birtist í athugasemd á bloggi Evu Hauksdóttur [leturbreyting mín]:
Mér finnst reyndar liggja alveg í augum uppi hvað Egill á við með sérkennilegri tölfræði. Í þáttunum er m.a. fjallað um bókmenntir fyrri alda. Bókmenntir voru karlamenning og það getur nú varla talist sanngjarnt að ætlast til þess að í slíkri umfjöllun sé konum gert jafn hátt undir höfði og körlum. Eins er vafasamt að hengja manninn fyrir það að meirihluti ævisagna séu sögur karla. Það eru höfundar sem stjórna því um hvað þeir skrifa.
Ég settist því niður með listann og taldi einungis nöfn fólks sem fæddist um og eftir aldamótin 1900 (1899 fékk að fljóta með, það voru bara tvö nöfn). Niðurstaðan er þessi:

Konur    107   23%
Karlar   355   77%

Ef maður telur bara rithöfunda fædda eftir 1899 og gesti þáttarins (þ.e.a.s. ekki viðfangsefni ævisagna, sem Eva gagnrýnir) þá er niðurstaðan þessi (athugið að umfjöllunarefni Braga eru ekki tekin með í þessum tölum):

Konur   92   25%
Karlar   273   75%

Það er lengi hægt að leika sér með þessar tölur en ég held að hvernig sem þeim er snúið fer þetta allt á einn veg. Konur fá ekki þá umfjöllun í Kiljunni sem þær eiga skilið. Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta mál.

ES. Ég vil taka það fram, fyrst það virðist vera orðin viðtekin skoðun, að ekkert okkar sem skrifaði greinina í Fréttatímanum hefur farið fram á hengingu Egils Helgasonar. Honum hefur einungis verið bent á það að hlutfall kvenna í þættinum hans er óeðlilega lágt. Hafi hengingarólin einhvern tíma verið hengd um háls hans, er hann einn um það að herða hana. 

2 ummæli:

Súsanna Ósk sagði...

Það er ekkert að því að jafna hlut kvenna með þessum hætti og telja til þær konur sem hafa unnið merkileg störf á sviðum menningar hvort sem í formi myndlistar, bókmennta eða einhvers annars. Reyndar þykir það sjálfsagður hlutur núorðið að draga fram í dagsljósið þær konur sem farið hafa á mis við þá viðurkenningu sem þær eiga fyllilega skilið en fengu ekki á sínum tíma vegna hins margumtala kynjamisréttis.
Í þessum tilfellum er ekki verið að endurskrifa söguna eða breyta henni heldur þvert á móti verið að sýna hana í réttu ljósi. Með þessum hætti eru sjónarmið kvenna og karla gert jafnhátt undir höfði.
Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi, sem er alþjóðlega viðurkennd, mætti bjóða upp á mun fjölbreyttari túlkun á fortíðinni. Því er ekki með neinum hætti hægt að afsaka þá einsleitni sem einkennir þátt Egils Helga.

Eva sagði...

Jafnvel þótt við tökum 20. öldina er ekkert sjálfsagt að fara fram á kynjakvóta í fjölmiðlaumfjöllun um bókmenntir. Árið 2010 var hlutfall útgefinna skáldverka eftir konur aðeins 30%. Hvernig ætli það hafi verið árið 1920?

Konur birta síður skrif en karlar. Ástæðan er ekki slæmt aðgengi kvenna að fjölmiðlum. http://www.norn.is/sapuopera/2011/03/hver_meinar_konum_a_tja_sig_a.html

Ef við viljum rétta hlut kvenna í bókmenntaútgáfu og öðrum skrifum, þurfum við að kafa dýpra og finna út hvað það er sem hindrar konur í að skrifa eða birta skrif. Ég vildi að það væri Egill Helgason. Þá væri svo einfalt að laga þetta. En þetta er eitthvað flóknara.