2011-03-23

Um „ráð“ Ingu Hrannar

Hafið þið tekið eftir því að Pjattrófurnar eru næstum því hættar að fjalla um samskipti kynjanna? Núna eru eiginlega bara umfjallanir um snyrtivörur þar. Jú, og náttúrlega hönnun líka, sem er það sem gerir síðuna hálfáhugaverða ef eitthvað er. Reyndar skrifaði Gígí óskiljanlega færslu um það hvernig kona getur síkretað til sín karl, og klykkti út með orðunum

Vertu bara skapandi og jákvæð og hafðu þetta glaðleg tákn af pörum og áður en þú veist af… flýgur lítill feitlaginn Amor yfir höfði þér með spenntan boga.

Ef einhver getur sagt mér hvað þetta þýðir, má sá/sú gjarnan gefa sig fram.

Það er ekki hægt að segja um starfsfólk bleiks.is að það breyti um stíl. Þar sitja þau og dæla vitleysunni út á internetið eins og þau eigi lífið að leysa. Helgi Jean er samt of upptekinn núna við það að skrifa um allt fræga fólkið sem hann hefur hitt ... milli þess sem hann undirbýr nýju kallar.is-síðuna.

Inga Hrönn gefur lesendum til dæmis nokkur „ráð“ (ég skil ekki alveg hversvegna hún þurfti að setja gæsalappir utan um orðið, eins og að það sem hún skrifi sé eitthvað annað en ráð, lítur hún kannski á þetta sem lögmál?). Ráðin eru þrjú og mér finnast þau tvö síðustu mótsagnakennd.

Samkvæmt fyrsta ráðinu er heillavænlegt fyrir konu að hrósa karlmanninum sem hún er hrifin af. Það er ekki nóg að hrósa honum því samkvæmt öðru ráðinu (og nú þurfti ég að halda mér fast svo ég félli ekki í ómegin) er best „að hlæja eða brosa þegar strákur segir eitthvað fyndið (þó svo það sem hann segi sé ekki svo fyndið)“. Til þess að ganga í augun á karli þarf konan sem sagt að gera sér upp að henni finnist hann eitthvað skemmtilegur. Inga Hrönn reynir samt að bjarga sér fyrir horn með því að taka það fram að þetta eigi „ekkert við um alla stráka“ þótt „flestir kunni að meta það þegar stelpa sýnir áhuga á því sem þeir segja og sérstaklega þegar þær hlæja og brosa“. Einmitt. Það er gott að vita það. Þegar kona hlær og brosir að því sem ég segi, liggur eitthvað annað og meira undir en það að henni finnist ég skemmtilegur. Henni þarf ekkert endilega að finnast ég skemmtilegur; hún girnist mig

Það er með öðrum orðum sýndarmennskan sem er mikilvægust fyrir konur þegar þær vilja næla sér í karl. Nú kemur mótsögnin, því samkvæmt þriðja ráðinu er mikilvægt að vera „þú sjálf og ekki vera feimin við það að segja þínar skoðanir og standa fast á þínu“. Það er nefnilega þannig að þótt karlar kunni að meta það þegar konur sýna því sem þeir segja áhuga (þótt það sem þeir segja sé kannski ekkert sérstaklega áhugavert), þá kunna þeir líka að meta konur sem eru „ákveð[nar] og h[afa] skoðanir á hlutunum“.


Það skiptir engu máli hvort konan er undirförul eða hreinskilin. Ef karlinn sýnir henni ekki áhuga er hann bara „asni fyrir að taka ekki eftir [henni]!“

Og segið mér eitt, af hverju er alltaf talað um stelpur og stráka í þessum pistlum? Er verið að höfða til unglinganna sem lesa bleikt.is? Ef svo er, finnst mér að það ætti að setja aldurstakmark á síðuna.

2 ummæli:

Gisli sagði...

Ég vil endilega benda þér á þessa grein. http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/john-gray-hafdi-rangt-fyrir-ser-vid-erum-hvorki-fra-mars-ne-venus---godsagnir-afhjupadar
Skv. þessu er grundvöllurinn brostinn hjá bleikt.is og menn.is, ef kenningin er röng. ;)

Kv. Gísli

Sigurbjörn sagði...

Takk! Þetta var fróðlegt. Hérna má lesa greinina sem er vísað í:

http://www.aifs.gov.au/afrc/pubs/newsletter/frq018/frq018-2.html