Og hver er ástæðan? Jú, eins og alltaf er það mannlegt eðlið sem er undirrót alls ills. Það spillir fyrir því að konur og karlar geti verið vinir. „Við erum jú “bara” spendýr.“
Perlurnar hanga þétt á silkiþræðinum, fordómunum er pakkað inn í sellófan og ruglið svífur í loftinu svo maður áttar sig í raun og veru ekki á því hver efnistökin eru eða hvort tilgangur pistilsins sé í raun og veru annar en sá að fylla upp í eitthvert tómarúm á síðu Pjattrófanna. Hugmyndabrunnurinn er þurr.
Samhengið lýsir alla vega með fjarveru sinni og raunveruleg rök til stuðnings staðhæfingunni um að karlar og konur geti ekki verið vinir er ekki að finna í pistlinum. Þess í stað er rökleysunni kastað út í tíma og rúm án þess að nokkur fótur sé til fyrir henni í raunveruleikanum. Tökum dæmi:
• Samkvæmt nútíma skilgreiningu á vinskap, er raunverulegt vinasamband annars konar samband en kynferðislegt ástarsamband (það þurfti enga Pjattrófu til þess að segja okkur þetta)
• Vini langar ekki til þess að sofa saman (HA! Ég sem læt mig dreyma um trekant með bestu vinkonum mínum ... eða ekki)
• Ef konur eiga vini, þá eru þeir hommar (ég á vinkonur, ergo ég er hommi)
• Þegar hvorttveggja karl og kona eru aðlaðandi veltast litlar öldur um í undirmeðvitundinni, öldur sem hvísla: „Kannski gæti einhvern[ ]tíma[ ] eitthvað gerst“ (ég stóðst ekki mátið og leiðrétti málfarið). Myndmálið, maður lifandi. Þetta er betra en frasi úr bók eftir Paulo Coelho!
Svo koma gullmolarnir sem fengu mig til þess að efast um að Bella skilji orðin vinur og vinátta:
• Einhleypar konur njóta þess að eiga vini. Það skiptir nefnilega engu máli þótt hormónastarfsemi og eðlishvatir eyðileggi vinskapinn.
• Einhleypar konur gleðjast yfir því að eiga vini, því þá fá þær „jákvæða athygli frá hinu kyninu.“
• Hvaða kona fúlsar við því að eiga vin „sem hlustar á hana af athygli, finnst hún sæt og skemmtileg og er alltaf til í að gera það sem hana langar“.
OK. Vinátta karls og konu er greinilega háð duttlungum. Ég spyr mig hvort þeirra beri ábyrgð á hormónastarfseminni og hvort þeirra beri ábyrgð á eðlishvötunum. Getur verið að hormónastarfsemin sé konunnar og það sé karlinn sem lætur stjórnast af eðlishvötum?
Í heimi Bellu er vinátta það að manneskja notfærir sér góðvild annarrar manneskju:
[Konan] sér hann kannski ekki sem kynveru en innst inni nýtur hún athyglinnar. Svona sambönd geta varað lengi, jafnvel þótt bæði fari í önnur sambönd, en það kemur líka fyrir að tilfinningarnar gangi of langt og þá flosnar upp úr “vinskapnum”. Strákurinn verður frústreraður yfir því að ná aldrei lengra, þora aldrei að segja neitt og þess vegna getið þið ekki verið “vinir” lengur.Er þetta lýsing á vináttu? Er þetta ekki heldur lýsing á sambandi þar sem konan notar karlinn? Í mínum huga er vinátta gagnkvæm, hún virðist ekki vera það í huga Bellu. Tvískinnungurinn skín í gegn. Fyrst er okkur sagt að karl og kona geti ekki verið vinir. Svo er okkur sagt að vinasambönd geti „varað lengi, jafnvel þótt bæði fari í önnur sambönd“. Fyrst er okkur sagt að konan líti ekki á vin sinn sem kynveru. Svo er okkur sagt að tilfinningarnar gangi of langt. Hvaða tilfinningar?
Það er heldur ekki einn af bestu hæfileikum Bellu að leyna fordómum sínum gagnvart feitu fólki. Í huga hennar er allt í lagi að vinkona kærastans sé þybbin og trukkaleg (því þá er hún ekki aðlaðandi), en það er ekki allt í lagi að hún sé með pírð augu og í Wonderbra (því þá er hún of lík Ásdísi Rán). Það er ekki eins og það sé nóg fyrir Bellu að segja okkur þetta (eða hitt) einu sinni, því hún endurtekur sömu tuggurnar í sífellu. Ef maður á vin af hinu kyninu verður vinurinn að vera „ættingi, samkynhneigður eða með 50 aukakíló“ því annars fer allt í hass. Ég hef það á tilfinningunni að Bella skilji ekki muninn á vinasambandi og framhjáhaldi. Hver á „nánar stundir“ með vinum sínum? Á maður ekki einmitt vini til þess að geta átt samskipti við annað fólk á öðru plani en kynferðislegu?
Eftir allt þetta jaml, japl og fuður kemst Bella að þeirri frábæru niðurstöðu að „tilfinningalegur ídealismi [sé] óþægilegur“. Hvernig í ósköpunum henni tókst að komast að þessu get ég með engu móti áttað mig á en til að útskýra þetta allt saman betur dregur Bella upp „frum[manninn] í tilfinningalífi okkar“ sem er svo eigingjarn að hann vill helst ekki að makinn eigi samskipti við aðra. Okkur er með öðrum orðum ekki eðlislægt að eiga samskipti við fleiri en eina manneskju, maka okkar. Karlar eiga ekki að hafa pláss fyrir meira en eina konu í lífi sínu. Það held ég að sumir lifi einhæfu lífi sem þurfa að haga samskiptum sínum við annað fólk eftir kyni.
Svo toppar Bella allt saman með að vitna í könnun á spjallvef.
Á stráka spjallvef á netinu var spurt hvort strákar og stelpur gætu bara verið vinir og 80% strákanna svöruðu eins:
Það fer eftir því hvernig gellan lítur út!!!Ask a silly question, get a silly answer. Maður veltir því líka fyrir sér hversu margir svöruðu ... voru það jafnmargir og í „vísindalegri“ hommakönnun Margrétar Hugrúnar?)
Svo uppljóstrar Bella því að orðið vinur hafi fleiri en eina merkingu. Hún hefði kannski átt að fletta upp í Íslensku orðabókinni, því hún getur ekki komið með betri skýringu en þá að þeir sem eru vinir eru „að minnsta kosti ekki óvinir“. Takk Bella! Ég er miklu fróðari. Ég get þá upplýst þig um það að í minni orðabók hefur orðið vinur tvær merkingar:
- Kær félagi, nánungi sem maður getur treyst
- Karl sem e-r er í lauslegu ásatarsambandi við
Maður má ekki að vera óvinur barnsfeðra sinna. En „þegar kynferðislegar, (meðvitaðar eða ómeðvitaðar, viðurkenndar eða óviðurkenndar (langanir spila inn í, þá er alltaf eitthvað smá extra í “vinskapnum”. “ (Bella, þú ættir kannski að prófarkarlesa pistlana þína áður en þú birtir þá, þeir eru hálfólesanlegir). Veistu hvað þú ert að tala um? Hvar er samhengið í því að maður eigi að vera vinur barnsfeðra sinna og því að það vakni kynferðislegar tilfinningar? Heldur þú virkilega að öll vinasambönd endi í því að kynferðislegar langanir springi út eins og valmúi á hveitiakri? Á hvaða plánetu býr þú? Ættirðu ekki frekar að skrifa um eitthvað sem þú hefur vit á í stað þess að alhæfa um hluti sem þú hefur greinilega ekki hundsvit á?
Þú átt enga vini sem hafa áður verið kærastar þínir. Hversu marga vini áttu? Þú myndir bara samþykkja það að maðurinn þinn ætti vinkonur svo þú getir haldið í vini þína. Samband sem byggist á svona eigingirni endist ekki lengi.
Rúsínan í pylsuendanum:
Þetta er vandamálið sem við nútímafólk glímum stundum við en hugsið ykkur hippatímabilið þegar allir áttu að vera með öllum. Hreinlega sofa saman á meðan undirniðri kraumuðu komplexarnir. Í dag erum við að glíma við afleiðingar þessara frjálsu ásta sem í raun voru bara afleiðingar af frjálsri fíkniefnaneyslu.
Hvernig í fjandanum tengist þetta því að karlar og konur geti ekki verið „bara“ vinir? Fyrirgefðu, en ég átta mig bara alls ekki á því ...
5 ummæli:
Það er frábært að lesa pistlana þína Sigurbjörn.
Ég hlæ upphátt (í vinnunni) og sé svo Pjattrófurnar reyna að skilja hvað þú ert að fara (já, ég geri ósjálfrátt ráð fyrir því að þær séu treggáfaðar).
Þakka þér fyrir þessa afbyggingu pistlana þeirra.
Takk fyrir frábæra pistla! Ég veit ekki hvað Pjattrófurnar eru gamlar en mér finnst ég alltaf vera að lesa eitthvað eftir fermingarstelpur þegar ég villist á síðuna þeirra. Andlegi þroskinn er svona sirka á því leveli.
Hahaha...nákvæmlega!
Lára
Já, ég held að þetta sé einn versti pistill Pjattrófanna. En kannski ekki samt... En takk Sigurbjörn fyrir að nenna þessu.
Takk Sigurbjörn - ekki dettur mér í hug að nenna að lesa þær stöllur, en hef virkilega gaman af því að aðrir geri það til að greina "innihaldið" ;) Takk.
Skrifa ummæli