2011-04-12

Um þögn og samskipti

Ég veit ekki hvaða menntun Bella hefur, en það mætti halda að hún líti á sig sem sálfræðing miðað við ráðin sem hún gefur fólki. Ég spurði Pjattrófurnar að gamni mínu, en er ekki enn búinn að fá svar.

Ég leyfi mér samt að efast um að sálfræðingar gefi fólki í samskiptaörðugleikum sömu ráð og Bella notar í eigin sambandi og skrifar um í nýjasta pistlinum sínum.

Eins og svo oft áður fannst mér svolítið erfitt að greina megininntakið í pistli Bellu. Hann fjallar um það að allir lendi einhvern tíma í því að vera í sambandi þar sem upp koma vandamál sem okkur finnist óyfirstíganleg. En hann fjallar samt meira um fórnirnar sem konur eiga að færa í samskiptum við karla.
 
Bella heldur því fram að það sé hægt að leysa vandamál með auðveldum hætti. Í stað þess að setjast niður og ræða málin, ræða það af yfirvegun hvað betur megi fara, hvað bæði/báðir/báðar geti gert til þess að sambandið verði betra og að samskiptin batni, er lausn Bellu sú að konan fórni sjálfri sér fyrir ástina sína. Konan ber meginábyrgð á því að samskiptin gangi vel. Ef þau ganga illa, er best að hún þegi bara um vandamálin og láti sem ekkert sé. Leyfðu karlinum bara að hamast eins og naut í flagi, hann fattar það fyrr eða síðar að það hefur engin áhrif.

Þá spyr ég, hver í ósköpunum ætli hafi áhuga á því að vera í svoleiðis sambandi?

Dæmi Bellu er eins og öll dæmin sem hún kemur með, svo öfgafullt að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds af því að lesa það:

Þú og kærastinn eruð ósammála um margt og búin að venja ykkur á samskiptamynstur sem einkennast af rifrildum og særindum yfir öllu og engu. Hvorugt ykkar vill gefa sig og sættast á skoðun hins og þið virðist ætla halda þessum leiðindum og kíting áfram endalaust. Hvað er til ráða?

Sleppið tökunum á vandamálinu!

Ímyndaðu þér að þú setjir vandamálið ofan í poka sem þú hendir í ruslið eða kistu sem hægt er að læsa, það er að segja ef þú treystir þér ekki til að sleppa þessu vandmáli algjörlega og heldur að þú þurfir að ná í það seinna.

Konan á að láta sem „vandamál[ið] sé ekki lengur til“. Hún á að stinga hausnum í sandinn, halda kjafti og vera sæt. Sýna manni sem sýnir henni kannski ekki tilhlýðilega virðingu „ástúð, hlýju, skilning og hvatningu“. Hún á ekki að „gagnrýna hann og kvarta“. Hún á „að sjá það góða í honum og hrósa þegar þú getur“. Hún á að beygja sig fyrir tiktúrunum í honum. Hún á að koma fram við ástina sína eins og hann sé illa uppalinn krakki.

Bella heldur því fram að árangurinn af þessari meðferð eigi ekki eftir að láta bíða eftir sér. Í flestum tilfellum er það samt því miður þannig að fólk breytir ekki hegðunarmynstri sínu nema því sé bent á það að hegðun þess sé óásættanleg. En Bella talar af eigin reynslu, hún er eins og nýástfanginn unglingur og „vandamálið leystist af sjálfu sér“. Hún hlýtur að vera einhver ofurmanneskja því ég held að í mörgum tilfellum sé það þannig að ef fólk ræðir ekki málin og kemst að sameiginlegri niðurstöðu eigi vandamálið eftir að krauma undir niðri og verða enn stærra með tímanum.

Það er alveg áreiðanlega satt að „[m]eð breyttri hegðan og jákvæðara viðmóti fengum við viljann til að leysa vandamálin og komast til móts við hvort annað“. En hitt er annað mál að til þess að breyta hegðun sinni, verður maður að vita hverju á að breyta. Það gerist ekki með því að þaga málin í hel.

Svo held ég að Bella ætti að halda sig frá hugtökum eins og orsök og afleiðing. Það er mjög augljóst að hún áttar sig ekki á merkingu þeirra.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

No comment, bara sammála. Þessi Bella er dálítið furðuleg, hún er ekki kynnt á spássíunni eins og hinar og er ekki heldur nefnd í spjallinu við þær í Nýju lífi.
En netfangið er eflaust rangt, þær eru farnar af Eyjunni. KKK

Sigurbjörn sagði...

Gat skeð ...