Bleikt.is hvetur konur (og mæður sérstaklega) til að horfa á auglýsingamyndband frá Dove frá árinu 2007. Maður er nú hálfpartinn farinn að skilja það að ritstjórn og eigendur bleiks.is hefðu helst viljað setja Ísland á pásu í góðærinu, svona til að viðhalda þeim hugmyndum og líferni sem viðgekkst þá. Í auglýsingunni eru mæður hvattar til að tala við dætur sínar áður en tískuiðnaðurinn gerir það. Skilaboðin eru augljós, mæður eiga að hvetja dætur sínar til að nota krem frá Dove í stað annarra merkja. Þannig er þeim best bjargað úr klóm neyslunnar. Gagnrýnisleysið er fullkomið á bleikt.is eins og endranær. Og við vitum öll hvaða skilaboðum bleikt.is vill að mæður komi á framfæri við dætur sínar.
Fyrirtækið Unilever framleiðir Dove. Unilever framleiðir líka vöruna Fair and Lovely, sem er krem sem lýsir dökka húð (og er vitanlega markaðsfært í löndum þar sem konur með ljósa húð þykja eftirsóknarverðari en konur með dökka húð). Unilever á líka og framleiðir vörumerkið AXE. Auglýsingar á svitalyktareyðinum frá AXE eru vel þekktar fyrir að hlutgera konur.
Það má t.d. lesa um herferð Dove frá árinu 2007 á wikipedia.
PS. Er það ekki alveg stórkostlegt að allt sem birtist á bleikt.is er skyldu-? Skyldulesning, skylduáhorf, skylda. Þú verður, annars ertu ekki jafngild okkur sem setjum reglurnar, okkur sem vitum hvernig konur eiga að vera konur. Okkur sem berjumst fyrir frelsi kvenna til að vera kvenlegar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli