2011-06-14

Kvenþjóðin á ekki Bleikt

Sigurbjörn leit dagsins ljós fyrir sex mánuðum síðan. Á þessum sex mánuðum hefur margt gerst. Ég hef þroskast, lært ótrúlega margt og framfarirnar hafa verið miklar.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og hafa verið með einu móti. Ég, karlinn sem skrifa þetta blogg, veit að ég hef jákvæð áhrif á umræðuna og fjöldi þakkarbréfa hefur sýnt mér og sannað að skrif mín og umfjöllun hafa gert sitt gagn. Einnig hafa heyrst gagnrýnisraddir þar sem aðrir karlar segja mig of upptekinn af jafnrétti kvenna og að ég níði kynbræður mína niður.

Ekkert gæti verið fjær sannleikanum.

Bloggið mitt snýst um að benda á kynjamisrétti, vekja athygli á furðulegri orðræðu, og ég tek sífellt mið af því sem betur mætti fara í þjóðfélaginu með jákvæðri og uppbyggilegri umræðu. Ég hef einbeitt mér að því að fjalla um netmiðla, þótt eitt og annað hafi slæðst inn stöku sinnum.

Ég læt mig allt mannlegt varða. Ég fjalla minna um pólítík og Icesave, enda eru sérstakir miðlar til sem fjalla um slík mál (les Eyjan).

Ritstjórnarstefna mín felst í því að tala um þau mál sem oft fer minna fyrir í umræðunni. Ég gagnrýni konur og karla sem vilja endurreisa feðraveldið frá grunni. Ég fjalla um obeldi í ýmsum myndum (andlegu aðallega). Ég tala um það hvernig konum og körlum er holað niður á bása staðalímyndarinnar. Ég einblíni á lausnir og hvað mætti betur fara.

Ég hef ekki tekið á móti innsendum greinum, en hverjum sem er er frjálst að skrifa athugasemdir við skrif mín, sem hafa haft ótrúleg áhrif, hvort heldur sem er neikvæð eða jákvæð, og í athugasemdakerfinu getur fólk létt af sér ákveðnum málum. Þakkarbréfin og úrlausn ýmissa mála má þakka athugasemdunum og í pósthólfinu mínu eru afskaplega mörg bréf sem ég hef vart undan við að svara. Það segir mér margt um gildi þess að tjá sig, þó það sé nafnlaust, og hjálpar mörgum.

Og vitið þið eitt? Ég fjalla um megrunarkúra, kaloríusnautt fæði til að lifa daginn af eða að konur eigi að vera í ákveðinni líkamsþyngd. Ég fjalla um slíkt á gagnrýnum nótum og mun halda áfram að gera það. Ég er trúr þeirri stefnu minni.

Ég er fullmeðvitaður um að það er enginn sem grennist um 10 kíló á viku á heilbrigðan hátt. Þvert á móti hef ég einsett mér að breiða út þann boðskap að konur eigi að elska sig sjálfar eins og þær eru. Ég hef samt látið það eiga sig að taka myndir af konum og hef gagnrýnt útlitsdýrkunina og það hvernig afþreyingarmiðlar eins og bleikt.is, menn.is, pjattrófur og Hlín Einars hafa málað upp einhæfa mynd af körlum og konum og því hvaða hlutverkum karlar og konur eiga að gegna í samskiptum sínum og verður engin breyting þar á.

Kynjamisrétti er hættulegt, þrálátt og mun algengara en okkur grunar og vil ég síst af öllu senda þau skilaboð til kvenna að hegði þær sér bara eftir mynstri afþreyingarmiðlanna verði þær hamingjusamar, því það er einfaldlega rangt. Óaðlaðandi konur (ef það er þá til) eru ekkert endilega óhamingjusamari en aðlaðandi konur.

Ég veit vel að kynin eiga oft í vandræðum með samskipti. Ýmsar skoðanir þar að lútandi hafa birst á vefnum og er mér mikið í mun að hafa umræðuna sem fjölbreyttasta. Ég hvet konur aldrei til að niðurlægja sjálfar sig með því að þóknast karlmönnum eða að breyta sér til að einhverjum líki við þær eins og afþreyingarmiðlarnir gera. Ég reyni að hafa þá umræðu á breiðum grundvelli og reyni að draga allar misfærslur fram í ljósið.

Konur eru jafnmisjafnar og þær eru margar. Karlar líka. Fólk hefur ýmis áhugamál og þó margar hverjar kunni að hafa áhuga á heimilinu, snyrtivörum eða tísku er enginn sem bannar þeim það eða segir þeim að þau áhugamál eigi ekki jafnmikinn rétt á sér og önnur áhugamál. Það er munur á því að hafa áhugamál og það að alhæfa um hlutverk kynjanna eins og afþreyingarmiðlarnir gera. Það er munur á því að fjalla um smink og því að fjalla um „eðlislægan“ mun kynjanna.

Enda væri það mismunun og allir stefna í átt að fordómaleysi og jafnrétti, ekki satt?

Ég trúi því að fjöldi þeirra sem kemur inn á síðuna mína sýni mér að ég sé að gera eitthvað rétt. Það er meira en flestir íslenskir fjölmiðlar geta státað af.

Vissulega hefur mér ekki alltaf tekist ætlunarverkin, og ekki er allt fullkomið. Ég geri mistök og get misstigið mig eins og allir aðrir. Ég vinn samkvæmt ákveðinni stefnu og vil gera vel. Ef eitthvað hefur ekki heppnast reyni ég að gera betur næst, með jákvæðni að leiðarljósi.

Ég læt ekki segja mér að öll sú vinna sem ég legg í að hafa síðuna gagnrýna og hreinskipta beri ekki árangur. Eins dettur mér ekki í hug að rakka niður annað fólk í sömu starfsstétt eða öðrum stéttum. Ég niðurlægi mig ekki á þann hátt.

Ég er stoltur af síðunni minni og stoltur af því að vera femínisti. Ég mun halda áfram á sömu braut, þroskast, víkka út umfjöllunarefni og gera það sem ég geri best – að gagnrýna afþreyingarmiðla.

4 ummæli:

hildur sagði...

halelúja!

Kristín í París sagði...

Áfram Sigurbjörn!

Nafnlaus sagði...

Og ég er stolt af thér.
SBG

Þórunn Hrefna sagði...

Ég elska þig, Sigurbjörn!